KPMG á Íslandi samanstendur af þremur félögum sem eru öll að fullu í eigu 37 hluthafa.
Meginþjónusta KPMG á Íslandi er á sviði endurskoðunar og reikningsskila, skatta og lögfræðiráðgjafar, ráðgjafarþjónustu og bókhalds -og launaþjónustu. Við lok starfsársins störfuðu samtals 335 manns hjá KPMG á Íslandi. Allir hluthafar félaganna starfa hjá KPMG.
KPMG ehf.
KPMG ehf. heldur á sérleyfi frá KPMG Global og lýtur eftirliti og kröfum þaðan.
Starfsemi félagsins er skipt upp í þrjú svið, endurskoðunarsvið sem annast endurskoðun, uppgjörs- og reikningsskilaþjónustu, ráðgjafarsvið sem veitir alhliða rekstrarráðgjöf og þróun og rekstur sem annast innri þjónustu félagsins. Framkvæmdastjóri KPMG ehf. er Hlynur Sigurðsson sem jafnframt er framkvæmdastjóri KPMG á Íslandi.
KPMG Law ehf.
KPMG Law er sérhæfð alþjóðleg lögmannsstofa. Stofan byggir á grunni skatta- og lögfræðisviðs
KPMG, sem á sér langa sögu, en hefur frá 2017 verið rekin í sér félagi. Félagið veitir viðtæka þjónustu á sviði lögfræði- og skattamála. Framkvæmdastjóri KPMG Law er Ágúst Karl Guðmundsson og situr hann jafnframt í framkvæmdastjórn KPMG á Íslandi.
KPMG Bókað ehf.
Bókhalds- og launaþjónusta KPMG hefur verið rekin hefur verið undir heitinu Bókað. Starfsemin var sett í sérstakt félag sem stofnað var í uppghafi rekstrarársins og heitir KPMG Bókað ehf. Félagið sinnir þjónustu við um 2.000 fyrirtæki og stofnanir um land allt. Framkvæmdastjóri félagsins er Birna Mjöll Rannversdóttir og situr hún jafnframt í framkvæmdastjórn KPMG. Félagið var selt til norska fjármála og tækifyrirtækisins ECIT AS í upphafi rekstrarársins 2024-2025 og mun endanlegur frágangur viðskiptanna ganga í gegn í upphafi árs 2025.
Lykiltölur úr rekstri
Framkvæmdastjórn KPMG á Íslandi 2023-2024
Auður Þórisdóttir, forstöðumaður áhættustýringar og óhæðis
Ágúst Karl Guðmundsson, framkvæmdastjóri KPMG Law
Birna M. Rannversdóttir, framkvæmdastjóri KPMG Bókað
Erik Christianson Chaillot, mannauðsstjóri
Hlynur Sigurðsson, framkvæmdastjóri
Magnús Jónsson, sviðsstjóri endurskoðunarsviðs
Sigrún Kristjánsdóttir, sviðsstjóri þróunar og reksturs
Svanbjörn Thoroddsen, sviðsstjóri ráðgjafarsviðs
Efri röð f.v. Svanbjörn Thoroddsen, Auður Þórisdóttir, Birna M. Rannversdóttir, Hlynur Sigurðsson, Ágúst Karl Guðmundsson. Neðri röð f.v. Sigrún Kristjánsdóttir, Magnús Jónsson, Erik Christianson Chaillot.
Stjórn KPMG
Hrafnhildur Helgadóttir, stjórnarformaður
Jónas Rafn Tómasson
Magnús Erlendsson
Sigríður Soffía Sigurðardóttir
Sigurjón Örn Arnarson
F.v. Magnús Erlendsson, Hrafnhildur Helgadóttir, Sigríður Soffía Sigurðardóttir, Sigurjón Örn Arnarson og Jónas Rafn Tómasson.
Stefna og markmið KPMG 2025
KPMG á Íslandi vinnur eftir þeirri stefnu að vaxa á traustum grunni með því að vera augljóst val viðskiptavina, stuðla að ánægju starfsfólks og hafa jákvæð áhrif á samfélagið. Þessi stefna er útkoma úr stefnumótunarvinnu sem fór fram árið 2022 og gildir til ársins 2025. Undirstöður stefnunnar eru að nýta krafta og þekkingu starfsfólks þvert á félagið undir merkjunum „Betri saman“ auk þess að stuðla að aukinni skilvirkni í starfsemi félagsins. Sjálfbærnimarkmið félagsins eru fléttuð inn í heildarstefnuna. Þá byggir stefna félagsins á megintilgangi KPMG á alþjóðavettvangi sem er að efla traust á fjármálamörkuðum og vera drifkraftur jákvæðra breytinga í samfélaginu öllu.
Árangur félagsins á starfsárinu var í takt við stefnu og markmið félagsins. Á næsta starfsári fer fram endurskoðun á stefnu félagsins og er stefnt að því að móta nýjar áherslur í takt við breytta uppsetningu á félaginu eftir sölu bókhalds- og launaþjónustu félagsins auk þess stefnt er að þéttara samstarfi við aðildarfélög KPMG á Norðurlöndum.
Gildi KPMG
KPMG vinnur eftir fimm gildum en þau eru leiðarljós og kjarninn í öllu því sem félagið gerir í daglegum rekstri. Gildin samanstanda af því að starfa eftir heilindum, samheldni í krafti ólíkra styrkleika, að hafa hugrekki til þess að hugsa djarft og umbúðalaust, að stefna ávallt að framúrskarandi árangri og að verk félagsins séu unnin til hins betra.
Stjórnskipulag sjálfbærnimála
Framkvæmdastjóri er ábyrgðaraðili sjálfbærni hjá KPMG. Hlutverk hans er að hafa yfirsýn og eftirlit með sjálfbærnimálum ásamt því að samþykkja og bera ábyrgð á stefnu félagsins.
Framkvæmdastjórn ber ábyrgð á innleiðingu þeirra mála sem heyra undir hvert starfssvið ásamt því að hafa yfirsýn yfir markmið og stefnu á hverju sviði.
Hjá félaginu er starfandi sjálfbærninefnd. Í henni sitja framkvæmdastjóri, fjármálastjóri, mannauðsstjóri, forstöðumaður viðskiptaþróunar, fulltrúi hluthafa og sérfræðingur á sviði sjálfbærni. Hlutverk nefndarinnar er að hafa umsjón með innleiðingu og eftirfylgni sjálfbærnimála þvert á félagið auk þess að veita upplýsingar til haghafa um þau málefni sem heyra undir nefndina.
Mikilvægisgreining
Sjálfbærnivegferð okkar hefur byggt á mikilvægisgreiningu sem gerð var árið 2021. Í greiningunni kom fram að stjórnarhættir og félagslegir þættir vega þyngst í starfsemi okkar þó ljóst sé að við getum einnig haft áhrif á sviði hagsældar og umhverfis. Umfjöllun okkar í þessari skýrslu byggir á þessari mikilvægisgreiningu.
Á árinu hófst vinna við að uppfæra mikilvægisgreininguna eftir kröfum European Sustainability Reporting Standards (ESRS) um tvíátta mikilvægi. Unnið var útfrá mikilvægisþáttum sem KPMG Global hefur skilgreint sem mikilvæga fyrir starfsemina. Þrjár vinnustofur voru haldnar, með starfsfólki og framkvæmdastjórn þar sem unnið var að greiningu virðiskeðjunnar auk áhrifa, áhættu og tækifæra. Verið er að leggja lokahönd á greininguna með samtölum við hagaðila og ákvörðun um mikilvægismörk og er áætlað að endanleg greining verði tilbúin í árslok 2024.
Bráðabirgðaniðurstöður sýna að áfram liggja áhrif, áhætta og tækifæri að mestu leyti í félagslegum þáttum og stjórnarháttum. Í félagslegum þáttum er heilsa og öryggi starfsfólks og það að tryggja hæft og ánægt starfsfólk hvað mikilvægast. Í stjórnarháttum eru það siðferði, heilindi og óhæði sem eru mikilvægust ásamt upplýsingaöryggi, gagnsæi og ábyrgð. Áfram telst mikilvægt að við leggjum okkar að mörkum um mildun loftslagsáhrifa ásamt áhrifaríkri samfélagsþátttöku.
Þjónusta KPMG um allt land
Markmið KPMG á Íslandi er að veita fyrirtækjum, stofnunum og sveitarfélögum um allt land gæða þjónustu á breiðum grunni.
KPMG veitir þúsundum aðila mikilvæga grunnþjónustu og ráðgjöf á sviði bókhalds og reikningsskila, endurskoðunar, rekstrarráðgjafar og lögfræðilegra málefna. Þjónusta okkar er mikilvæg viðskiptavinum okkar til að stunda löglega, og sjálfbæra viðskiptahætti og til að ná árangri í sínu starfi. Stefna KPMG er að hafa jákvæð áhrif á samfélagið og við viljum vera fyrsta val viðskiptavina á markaðnum. Starfsstöðvar KPMG eru 15 talsins og dreifast um allt land.
Eitt af markmiðum okkar hjá KPMG er að vera ávallt fyrsta val viðskiptavina. Til þess að ná því markmiði leggjum við mikið upp úr því að þekkja rekstrarumhverfi og þarfir einkafyrirtækja og opinberra aðila á markaðnum hverju sinni. Við höfum um árabil lagt áherslu á vettvang innan KPMG þar sem markmiðið er að skapa sérþekkingu á lykil atvinnugreinum á Íslandi. Um er að ræða vettvang sem samanstendur af reynslumiklu starfsfólki sem hefur unnið fyrir félög í ýmsum atvinnugreinum auk sérfræðinga á þeim sviðum rekstrar sem nýtist hverri og einni atvinnugrein sem best. Um er að ræða starfsfólk sem sinnir lykil atvinnugreinum íslensku atvinnulífi.
Starfsfólk KPMG á í góðu samstarfi við KPMG á alþjóðlegum vettvangi, sér í lagi á norðurlöndum, þar sem mikil þekking liggur um það sem efst er á baugi innan helstu atvinnugreina hverju sinni. Hér á eftir eru dæmi um atvinnugreinar sem KPMG hefur lagt áherslu á að skapa sérþekkingu á má nefna sprota og nýsköpunarfyrirtæki og einnig sveitarfélög.
Sérþekking innan atvinnugreina
• Opinberir aðilar (Sveitarfélög, opinberar stofnanir og fyrirtæki)
• Fjármálaþjónusta
• Sprotar og hraðvaxtarfélög
• Orka og innviðir
• Ferðaþjónusta
• Fasteignafélög og verktakar
• Verslun og þjónusta
• Sjávarútvegur og fiskeldi
Fyrsta val sprotafyrirtækja
Markmiðið okkar er að vera fyrsta val sprota- og nýsköpunarfyrirtækja á Íslandi. Við veitum nýsköpunarfyrirtækjum og fjárfestum fjölbreytta ráðgjöf og þjónustu á sviðum fjármála, rekstrar, lögfræði og skatta. Hjá okkur starfar hópur sérfræðinga sem hefur byggt upp mikla reynslu og þekkingu á viðfangsefnum nýsköpunarfyrirtækja, fjárfesta og annarra fjármögnunaraðila og stuðningsaðila nýsköpunar. Við leggjum jafnframt ríka áherslu á að vera öflugur samstarfsaðili nýsköpunarumhverfisins á Íslandi. Samhliða því að veita nýsköpunarfyrirtækjum og fjárfestum víðtæka þjónustu og ráðgjöf á öllum okkar sviðum sinnir starfsfólk okkar fjölbreyttum stuðningi við nýsköpunarumhverfið á Íslandi og má þar nefna mentora hlutverkum í hinum ýmsu hröðlum og keppnum, fyrirlestrum og öðru fræðslustarfi, setu í rýnihópum og dómnefndum, ritun greina, skýrslna, umsagna um lagafrumvörp o.s.frv. Þá er KPMG bakhjarl fjölda framtaka í nýsköpunarumhverfinu og má þar m.a. nefna Klak, Gullegið, Nýsköpunarvikuna, Norðanátt, Drift í Eyjafirði og Junior Achievement.
Sérþekking í málefnum sveitarfélaga
KPMG hefur allt frá stofnun veitt sveitarfélögum um allt land mikilvæga þjónustu og ráðgjöf varðandi endurskoðun, uppgjör og reikningsskil og gerð rekstraráætlana. Þessi þjónusta er afar stór hluti af þjónustu okkar á landsbyggðinni enda leggjum við mikið upp úr því að vera nálægt viðskiptavinum og þekkja vel áskoranir í rekstri hvers sveitarfélags. Hjá KPMG starfar hópur mjög reynslumikilla sérfræðinga á sviði sveitarfélaga sem leggur áherslu á að greina þarfir og móta þjónustuframboð félagsins á þessu sviði.
Félagið leggur áherslu á sýnileika á markaðnum tekur þátt í ráðstefnum og fundum um málefni sveitarfélaga til að tryggja tengsl við markaðinn. Til dæmis er KPMG ávallt með bás á Fjármálaráðstefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga þar sem starfsfólk víðsvegar af landinu hittir sína tengiliði frá sveitarfélögum. Gott samstarf við Samband íslenskra sveitarfélaga á árinu varð til þess að KPMG gerði greiningu á áskorunum starfsfólks sveitarfélaga varðandi fjárhagsáætlanagerð og getur sú greining ásamt öðrum þáttum í samstarfinu orðið grunnur að úrbótavinnu á því sviði til framtíðar. Þjónustuframboð félagsins fyrir sveitarfélög hefur þróast
mikið og til dæmis sinnir félagið nú ýmsum stefnumótunarverkefnum, breytingastjórnun, stjórnsýslu- og lögfræðiráðgjöf. Undanfarið rúmt ár hefur verið skipulega verið unnið að þróun þjónustu í velferðar- og fræðslumálum, sem eru stærstu málaflokkar sveitarfélaga. Þá hefur starfsfólk KPMG haft umsjón með vinnustofum, starfsdfögum og stýrt fundum fyrir sveitarfélög. Aukin áhersla hefur verið í stafræna vegferð sveitarfélaga og hefur sérfræðihópur KPMG unnið að þróun lausna á því sviði sem nýtast sveitarfélögum til að ná meiri skilvirkni og auknum árangri í rekstri.
Þróun og samstarfsverkefni
Hjá KPMG er lögð mikil áhersla á þróun og nýsköpun í þjónustu-
framboði félagsins til þess að mæta þörfum viðskiptavina með sem bestum hætti. Til að ná sem mestum árangri leggjum við áherslu á að nýta sérþekkingu okkar starfsfólks til að þróa þjónustuleiðir ásamt því að efna
til samstarfs við utanaðkomandi aðila með afburða hæfni og þekkingu. Á starfsárinu lögðum við áherslu á þrjú verkefni sem styðja við þessa áherslu okkar á sviði nýsköpunar og þróunar.
Áætlunarlíkan Sveitarfélaga
Innan KPMG hefur myndast afar mikil þekking á fjármálum sveitarfélaga, en KPMG hefur veitt fjölmörgum sveitarfélögum þjónustu á breiðum grunni til fjölda ára. Fjárhagsáætlunargerð og uppgjörsferli sveitarfélaga er mikilvægur en mjög tímafrekur og flókinn þáttur í starfsemi þeirra. Hagsmunirnir við að áætlanir séu vel unnar og raunhæfar eru miklir og að sama skapi eru hagsmunaðilar mjög margir og ólíkir.
Markmið okkar hjá KPMG er að vinna með sveitarfélögum við að gera ferli við áætlunargerð einfaldara og skilvirkara. Með því að þróa áætlunarlíkan sem sparar tíma við áætlanagerð og uppgjörsferli, einfaldar samskipti hagaðila og bætir yfirsýn gerum við sveitastjórnum kleift að taka betri ákvarðanir og þannig ná meiri árangri í rekstri. Þróunarteymi innan KPMG hefur unnið að því að smíða áætlunarlíkanið og er áherslan á að það þjóni okkar viðskiptavinum með sem bestum hætti. Öll gögn eru geymd með öruggum hætti í skýjaumhverfi, viðmótið er þróað með þarfir notenda í huga og framsetning á gögnum er einföld og markviss. Áætlunarlíkanið er nú í prófunarferli hjá völdum notendum og er stefnan sú að setja fyrstu útgáfu þess á markað á fyrri hluta ársins 2025.
GreenSenze
Origo og KPMG þróuðu á árinu lausn sem greinir kolefnisspor í innkaupum fyrirtækja undir heitinu GreenSenze. Lausnin er mjög einföld í notkun en mörgum fyrirtækjum reynist erfitt að greina kolefnisspor í innkaupum sínum. Lausnin notfærir sér gögn úr rafrænum reikningum og auðgar þau með ýmsum gagnalindum og sérfræðiþekkingu KPMG á kolefnisútreikningum. Upplýsingarnar eru svo birtar með skýrum hætti í lifandi mælaborði þar sem hægt er með einföldum hætti að skoða ítarleg gögn um það sem hægt er að bæta í sjálfbærni fyrirtækja.
Greensenze var kynnt á morgunfundi KPMG og Origo í maí 2024 og vakti áhuga meðal forsvarsfólks fyrirtækja og opinberra aðila sem mætti á fundinn. Lausnin mun auðvelda fyrirtækjum að ná yfirsýn yfir kolefnisspor í innkaupum fyrirtækja og opinberra aðila og þannig stuðla að betri ákvörðunum og markvissari upplýsingagjöf. Sjálfbærniteymi KPMG var lykilaðili í samstarfinu við Origo en lausnin byggir á þeirri þekkingu sem starfsfólk félagsins býr yfir í kolefnisútreikningum og aðferðarfræðinni á bak við þá. Með því að tengja afburða þekkingu KPMG í sjálfbærnimálum við tækniþekkingu og innkaupalausnir Origo er nú komin öflug lausn á markaðinn sem byggir á rafrænum reikningum í gegnum Unimaze skeytamiðlarann.
Stjórnendamælaborð Advise
KPMG og Advise skrifuðu á starfsárinu undir samstarfssamning sem gerir KPMG kleift að veita viðskiptavinum sínum betri þjónustu með
Advise Business Monitor hugbúnaðarlausninni.
Advise, sem er íslensk hugbúnaðarlausn á sviði viðskiptagreindar, veitir litlum og meðalstórum fyrirtækjum rauntímaupplýsingar um rekstur sinn, auðveldar samskipti hagsmunaaðila og stuðlar að gagnadrifnum ákvörðunum. Lausnin innifelur m.a. lifandi rekstrargreiningar og mælaborð auk öflugrar aðgangsstýringar. Nú þegar hafa ýmsir viðskiptavinir KPMG nýtt sér þjónustu Advise með góðum árangri.
Þekkingarmiðlun
Yfirlit yfir fundi, ráðstefnur og námskeið
Öflug þátttaka í atvinnulífinu
KPMG tekur þátt í fjölmörgum verkefnum og er aðili að helstu samtökum í íslensku atvinnulífi.
Starfsnám
Síðastliðin ár höfum við boðið upp á starfsnám fyrir nemendur á háskólastigi. Áhersla hefur verið á nemendur í viðskipta- , verk- og tölvunarfræði. Er það í samræmi við stefnu okkar um að vera eftirsóknarverður vinnustaður og beita áhrifum okkar til góðs.
Starfsnámið hefur verið í samvinnu við Háskólann í Reykjavík og bjóðum við bæði grunn- og framhaldsnemum að koma til okkar og verja 120-300 klst. í verkefni hjá okkur. Áherslan er á hagnýt verkefni sem gagnast nemendunum jafnt sem félaginu. Starfsnámið er hluti af námi nemendanna og fá þau einingar fyrir. Fjöldi starfsnema á árinu voru 12 og var fjórum boðið starf að starfnámi loknu og þáðu þau öll starfstilboðið.
Skattar
Við viljum leggja okkar af mörkum til samfélagsins í formi skattgreiðslna. Síðast liðin ár höfum við reiknað skattspor okkar. Í því er að finna yfirlit yfir alla greidda skatta félagsins. Skattspor félagsins fyrir starfsárið 2023-2024 nam samtals ríflega þrem milljörðum króna.
Á starfsárinu var fyrsta skattastefna félagsins samþykkt af stjórn og markmið okkar að halda áfram vegferð
að skipulagðri skattframkvæmd og nálgun í samræmi við meginreglur KPMG á heimsvísu um ábyrga skattframkvæmd og auknar kröfur um afstöðu og stjórnun skattamála.
Skattframtöl hluthafa KPMG ehf. og KPMG Law eru yfirfarin af skattasérfræðingum okkar auk þess sem
KPMG á heimsvísu gerir árlega úttekt á úrtaki skattframtala eigenda.
KPMG í samfélaginu
KPMG leggur áherslu á að vera virkur þátttakandi í samfélaginu og vinna samkvæmt stefnu sinni að sjálfbærri starfsemi sem skilar jákvæðum áhrifum. Með heilindi og ábyrgð að leiðarljósi styður félagið við mikilvæg málefni og vinnur að því að bæta samfélagið, efla tengsl við hagaðila og skapa langtímavirði fyrir þá aðila sem tengjast starfsemi þess.
Hinsegin dagar
Hinsegin dagar voru haldnir dagana 6.-11. ágúst 2024 þar sem yfirskriftin var ,,Stolt er styrkur“. Við sem samfélag höfum rými fyrir okkur öll, óháð því hvernig við skilgreinum okkur eða hvern við elskum. KPMG var áfram samstarfsaðili Hinsegin daga og við höldum áfram að vera forvitin, fræðast og tökum þátt í að skapa samfélag þar sem allt fólk á jafnan tilverurétt.
Minningarsjóður Bryndísar Klöru
Við, líkt og þjóðin öll, vorum harmi slegin yfir fréttunum af andláti Bryndísar Klöru Birgisdóttur sem lést eftir stunguárás í Reykjavík í ágúst. KPMG aðstoðaði fjölskyldu Bryndísar Klöru við stofnun Minningarsjóðs Bryndísar Klöru og heldur utan um
starfsemi hans.
Sjóðurinn mun styðja við verkefni sem miða að því að vernda börn gegn gegn ofbeldi og efla samfélag þar sem samkennd og samvinna
eru í forgrunni.
Reykjadalur
Reykjadalur eru sumarbúðir í Mosfellsdal fyrir fötluð börn og ungmenni. Árlega koma um 300 einstaklingar í Reykjadal á aldrinum 8-21 árs. Þar er haft að leiðarljósi að ekkert sé ómögulegt og ævintýrin látin gerast.
Hópur starfsfólks KPMG slóst í hóp með Félagi löggiltra endurskoðenda (FLE) og varði einum vinnudegi við að hjálpa starfsfólki Reykjadals við ýmis viðhaldsverkefni.
Reykjavíkurmaraþon
Yfir 35 hlauparar á vegum KPMG tóku þátt í Reykjavíkurmaraþoninu í hinum ýmsu vegalengdum, allt frá 3 km skemmtiskokki yfir í heilt maraþon. Alls söfnuðu hlauparar KPMG samtals 1,28 milljón krónum til styrktar Ljóssins og annarra góðra málefna.
Perlað af Krafti
Starfsfólki KPMG gafst tækifæri til nýta tíma til góðra verka í vinnu með því að perla til styrktar Krafti, félags ungs fólks sem greinst hefur með krabbamein og aðstandenda. Nýtt Lífið er núna armband var perlað sem var svo til sölu í fjáröflunar- og vitundarvakningu Krafts.
Sjálfbærnivika
Sjálfbærnivika KPMG var haldin í annað skiptið og undir yfirskriftinni „Hvernig hefur KPMG jákvæð áhrif á samfélagið?“. Vikan er liður í því að auka vitund starfsfólks um mikilvægi sjálfbærni í starfi KPMG og framtíðarsýn okkar um að vera leiðandi aðili á markaðnum þegar kemur að sjálfbærni. Nokkrir viðburðir voru í boði í sjálfbærnivikunni sem opnir voru öllu starfsfólki félagsins.
Sjálfbærnisérfræðingar KPMG héldu kynningu fyrir starfsfólk í takt við yfirskrift vikunnar. Þar var sjónum beint að því hvernig við vinnum saman að sjálfbærni þvert á svið og hvaða áskoranir og tækifæri fylgja því. Starfsfólki KPMG gafst einnig kostur á að sækja verklegt skyndihjálparnámskeið. Þá var starfsfólk hvatt til að nýta vistvænar samgöngur á leið í vinnuna með því að ganga, hjóla, Hoppa eða sameinast í bíla eins og kostur var á. Þar að auki var Bleika slaufan til sölu móttöku í Borgartúni 27 og seldust um 80 eintök af henni.
Golfmælaborð
KPMG hefur stutt Golfsamband Íslands um árabil og átt farsælt samstarf. KPMG hefur lagt áherslu á að styðja uppbyggingu íþróttarinnar, sérstaklega ungar afrekskonur í íþróttinni.
Á starfsárinu greindu ráðgjafar KPMG gögn frá Íslandsmótum GSÍ frá 2001 og birt áhugaverða tölfræði í mælaborði á vef sínum. Með því skapast innsýn í ýmsa þætti leiksins, s.s. hverjar hafa verið erfiðustu holurnar og hvaða kylfingar hafa náð bestu meðaltölum. KPMG stillti einnig upp tölfræði í útsendingu sjónvarpsins frá Íslandsmótinu þar sem áhersla var lögð á að draga fram áhugaverða tölfræðiþætti sem tengdust sterkustu kylfingum landsins ásamt tölfræði frá Íslandsmótinu sem fram fór á Hólmsvelli í Leiru árið 2011.
KPMG styrkir fjölmörg verkefni sem tengjast íþróttastarfsemi eða stuðla að almennu heilbrigði, umhverfismálum eða sjálfbærni. Markmið okkar er að hafa jákvæð áhrif á samfélagið og á árinu veittum við samtals um 26 milljónum króna til íþróttastarfs, almannaheillaverkefna og annarra góðgerðamála.