Vöxtur á öllum sviðum KPMG
Rekstrarári okkar hjá KPMG lauk þann 30. september 2024 og var það 49. rekstrarár félagsins. Árið var viðburðaríkt um margt og gekk rekstur okkar vel á öllum sviðum. Við höfum viðhaldið sterkri markaðsstöðu félagsins og eftir sem áður njótum við mikils trausts okkar viðskiptavina og samfélagsins í heild.
Rekstur KPMG á Íslandi samanstendur af þremur meginstoðum sem eru KPMG ehf., KPMG Law ehf og KPMG Bókað ehf. og tekur til reikningsársins 1. október 2023 til 30. september 2024. Samanlagðar rekstrartekjur félaganna þriggja að teknu tilliti til innri viðskipta námu 8.198 mkr. og hafa vaxið um 1.119 mkr. milli ára. Þá var hagnaður KPMG á Íslandi 783 mkr. á starfsárinu samanborð við 627 mkr. á síðasta ári. Markmið félagsins um vöxt og afkomu hafa gengið vel eftir og eru í samræmi við þá stefnumörkun sem farið var í á árinu 2022 og
nær til 2025.
Hagfelldar aðstæður framundan
Við höfum séð mikla eftirspurn eftir okkar þjónustu undanfarna mánuði, ekki síst í ráðgjöf og skatta- og lögfræðiþjónustu. Eftir langt tímabil þrálátrar verðbólgu og hárra vaxta þá virðist loks vera viðsnúningur framundan, vaxtalækkunarferli er hafið og verðbólgan hefur rénað umtalsvert. Það eru því væntingar til þess að aðstæður í atvinnulífinu verði hagfelldar og mikilvægt að ná stöðugleika til lengri tíma.
Aukin áhersla á kjarnasvið félagsins
Á árinu var tekin ákvörðun um að selja meirihluta í KPMG Bókað til norska félagsins ECIT AS og mun nýr eigandi taka við rekstrinum í ársbyrjun 2025. KPMG mun áfram eiga minnihluta í félaginu og vera í góðu samstarfi við það áfram. Ekki verða breytingar á þeim öfluga hópi starfsfólk sem hefur leitt og sinnt þjónustu við viðskiptavini á sviði bókhalds- og launaþjónustu. Þessi breyting er hluti af þeirri vegferð sem KPMG á Íslandi er í varðandi nánara samstarf KPMG á Norðurlöndunum og einnig á alþjóðlega sviðinu. Stefna KPMG er að efla og sinna áfram þjónustu á kjarnasviðum félagsins sem eru endurskoðun og reikningsskilaþjónusta, skatta- og lögfræðiþjónusta og ráðgjöf.
Eftir stefnumótunarvinnu sem ráðist var í 2022 höfum við unnið saman eftir kjörorðunum „Betri saman“. Það rammar vel inn styrkleika KPMG sem felst í því að vinna þétt saman þvert á svið, þjónustulínur og landamæri með það að markmiði að veita viðskiptavinum okkar afbragðsþjónustu í samræmi við þeirra þarfir og væntingar. Meginstef stefnunnar okkar eru að stuðla að ánægju starfsfólks, vera augljóst
val viðskiptavina og hafa jákvæð áhrif á samfélagið. Að okkar mati hefur stefnan skilað áþreifanlegum árangri og við vinnum betur en áður saman þvert á félagið, viðskiptavinum okkar og samfélaginu til hagsbóta.
KPMG á tímamótum
Árið 2025 markar stór tímamót í sögu KPMG á Íslandi en þá fögnum við 50 ára afmæli félagsins. KPMG hefur verið leiðandi aðili á sínum markaði á Íslandi um langan tíma og við erum afar þakklát fyrir þá tryggð sem viðskiptavinir félagsins hafa sýnt og fyrir það traust sem okkur er sýnt og við eigum allt undir. Við höfum verið lánsöm með starfsfólk í gegnum tíðina og á því byggjum við okkar árangur, fyrir það erum við ákaflega þakklát. Við horfum spennt til framtíðar á þessum tímamótum og munum sækja enn frekar fram á okkar sérsviðum á grunni þekkingar, reynslu og aukins alþjóðlegs samstarfs.
Ánægt starfsfólk
Við leggjum mikla áherslu á að gefa starfsfólki okkar tækifæri til að þróa og efla sína hæfni í alþjóðlegu og spennandi umhverfi. Starfsánægjukannanir sem við framkvæmum reglulega sýna okkur að fólkið okkar er ánægt og líður vel. Við leggjum áherslu á að styðja við andlega og líkamlega heilsu okkar fólks og bjóðum fjölbreytta ráðgjöf, m.a. í gegnum Köru Velferðartorg ásamt því að halda úti íþróttastarfi sem starfsfólk hefur greiðan aðgang að. Þá höfum við undanfarin ár fjárfest mikið í aðbúnaði starfsfólks og starfsumhverfi. Starfsaðstaða okkar á höfuðborgarsvæðinu hefur verið endurhönnuð með það í huga að skapa vinnuumhverfi sem er í fremstu röð á Íslandi. Nú standa yfir framkvæmdir þar sem verið er að gera slíkt hið sama á starfsstöðvum okkar víða um land. Við erum stöðugt að þróa
og bæta verkferla okkar með stafrænar lausnir í huga. Jafnframt vinnum við þétt með okkar viðskiptavinum á þeirra stafrænu vegferð og miðlum til þeirra þekkingu okkar og innsæi.
Sjálfbærni er sömuleiðis rauður þráður í stefnu félagsins sem unnið hefur verið eftir frá árinu 2022. Við höfum byggt upp sterkt sjálfbærniteymi þvert á öll svið félagsins sem styður við okkar viðskiptavini sem og okkur sjálf þegar kemur að því vera í fararbroddi í sjálfbærnimálum. KPMG hefur verið framarlega í ráðgjafarþjónustu á þessu sviði og fram á veginn mun þurfa að staðfesta og votta sjálfbærniupplýsingar sem fram koma í ársreikningum og öðrum fjárhagsupplýsingum fyrirtækja og stofnanna.
Framtíðin er björt
Það eru spennandi tímar framundan og ýmsar áskoranir sem við hjá KPMG hlökkum til að takast á við með okkar starfsfólki, viðskipta-
vinum og öðrum hagaðilum. Leiðarljós okkar er að skapa áfram traust í viðskiptalífinu með störfum okkar og við tökum þá ábyrgð alvarlega.
Um skýrsluna
KPMG á Íslandi gefur út sína fjórðu ársskýrslu en þessi samþætta skýrsla tekur til reksturs, starfsemi og sjálfbærni hjá KPMG ehf., KPMG Law ehf. og KPMG Bókað ehf. fyrir rekstrarárið 1. október 2023 til 30. september 2024.
Í skýrslunni er farið yfir rekstur félaganna á tímabilinu 2023–2024 og skuldbindingar þess á sviðum umhverfismála, mannauðs, stjórnarhátta og hagsældar. Skýrslan tekur til allra 15 starfsstöðva KPMG á Íslandi. Þar að auki verður fjallað um undirbúningsferli félagsins til að mæta auknum kröfum um upplýsingagjöf á sviði sjálfbærni, ásamt því að greina þær breytingar sem nýjar kröfur hafa í för með sér.
KPMG býður fjölbreyttum hópi viðskiptavina upp á sérhæfða ráðgjöf og þjónustu á sviði endurskoðunar, reikningsskila, bókhalds, skattskila, lögfræði og viðskiptaráðgjafar.
Skýrslan fylgir ekki sérstökum viðmiðum eða stöðlum í heild sinni en er unnin með hliðsjón af UFS-leiðbeiningum Nasdaq og nýjum stöðlum Evrópusambandsins um sjálfbærni (ESRS). Þó skýrslan fylgi ekki sérstökum viðmiðum hefur KPMG hafið undirbúning fyrir komandi löggjöf Evrópusambandsins (Corporate Sustainability Reporting Directive, CSRD) um upplýsingagjöf í sjálfbærni.
Umhverfishluti skýrslunnar er byggður á aðferðafræði Greenhouse Gas Protocol. Félagið hefur ekki valið ákveðin Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna til að styðja sérstaklega í starfsemi sinni.
Þar sem KPMG á Íslandi eða KPMG kemur fram í skýrslunni er verið að vísa til allrar starfsemi félaganna þriggja, þ.e. KPMG ehf., KPMG Law ehf. og KPMG Bókað ehf. nema annað sé tekið fram.