Vinnustaðastefna
Einn af þremur drifkröftum stefnu okkar er Ánægt starfsfólk þar sem áherslan er á að vera eftirsóknaverður vinnustaður með fjölbreytt og framúrskarandi starfsfólk. Frá árinu 2022 höfum við unnið eftir vinnustaðastefnu sem byggir á þessum áherslum og birtist í eftirfarandi áherslum:
Heilsa og vellíðan
Stefna félagsins byggir á því að starfsfólk okkar er stærsta auðlind félagsins. Við höfum því haldið áfram þeirri áherslu að fjárfesta í heilsu og vellíðan starfsfólks sem við teljum að skilar sér í ánægðara starfsfólki, betri þjónustu til viðskiptavina og auknu virði fyrir félagið.
Í kjölfar stefnumótunar hjá félaginu árið 2022 var gerður aðgerðalisti og ný heilsustefna sem byggir á því að auka ánægju og vellíðan starfsfólks. Margar af aðgerðunum höfðu þegar komið til framkvæmda við upphaf starfsársins og var fylgst með árangri þeirra. Í árlegri starfsánægjukönnun KPMG fyrir árið mældist starfsánægja og helgun 89% og 91% sögðust mæla með KPMG sem frábærum vinnustað. Þá hafa reglulegar púlskannanir sem mæla ánægju, álag, samskipti og fleira haldið áfram að hækka jafnt og þétt og þar mælist starfsánægja 7,8 af 10.
Helsta tækifæri okkar í þessum mælingum er að halda áfram að vinna í að dreifa betur úr álagi með aukinni skilvirkni og samstarfi. Betri reynsla komst á bætta vinnuaðstöðu á höfuðborgarsvæðinu auk þess sem vinna hófst við endurbætur á vinnuaðstöðu á starfstöð okkar á Selfossi. Þetta starfsár var einnig það fyrsta þar sem starfsfólk hafði aðgang að velferðarþjónustu í gegnum Köru Connect en þar getur starfsfólk bókað allt að fjóra tíma á ári hjá sérfræðingum á sviði sálfræði, svefns, næringarfræði og fjölskyldu- og sambandsráðgjafar á kostnað KPMG. 15% starfsfólks bókaði að meðaltali þrjá tíma á árinu hjá sérfræðingum í gegnum Köru Connect velferðartorgið sem hefur reynst verðmæt viðbót í virðistilboð KPMG gagnvart starfsfólki.
Fjölbreytileiki og inngilding
Í takt við stefnu okkar leggjum við áherslu á að starfsfólki okkar líði vel og geti verið það sjálft í vinnunni. Við viljum að KPMG sé vinnustaður þar sem fjölbreytileiki er virtur og öll hafi jöfn og sanngjörn tækifæri óháð því hver þau eru. Hluti af því eru reglulegar kannanir sem snúa að sálrænu öryggi og viðbrögð við þeim ásamt því að við tókum í fyrsta skipti þátt í Global Values week með KPMG á heimsvísu þar sem fjallað var um gildin okkar og hvað þau þýða fyrir okkur en eitt af grunngildum okkar er samheldni og við trúum því að henni verði ekki náð nema fólki líði vel og geti verið það sjálft.
Þá héldum við áfram samstarfi okkar og stuðningi við Hinsegin daga sem má lesa nánar um í kaflanum KPMG í samfélaginu.
Samskipti við nærsamfélagið
Við viljum hafa jákvæð áhrif á samfélagið í kringum okkar. Á síðasta starfsári höfum við unnið að því einkum með tvennum hætti. Annars vegar hefur starfsfólk tækifæri til að verja því sem nemur einum vinnudegi á ári til samfélagslegra verkefna. Verkefnin þurfa að stuðla að jákvæðum áhrifum á fólk eða umhverfi. Í ár jókst fjöldi tíma sem starfsfólk nýtt í samfélagsleg verkefni umtalsvert. Samtals voru 41 dagur nýttur í ár samanborið við 19 daga á fyrra ári sem nemur 116% aukningu.
Hins vegar höldum við ýmsa viðburði og fræðslufundi um þau málefni sem við höfum sérþekkingu á ásamt námskeiðum fyrir viðskiptavini. Nánari umfjöllun um fræðslufundi og viðburði má finna í kaflanum Þekkingarmiðlun. Einnig sinnir hluti starfsfólks okkar kennslu við menntastofnanir og heldur reglulega fræðsluerindi hjá fyrirtækjum og félögum.
Þjálfun og endurmenntun
Í starfsemi okkar sem þekkingarfyrirtæki er þjálfun og endurmenntun mikilvæg. Árlega fer allt starfsfólk okkar í gegnum ákveðna skyldufræðslu um viðskiptasiðferði, óhæði og gagnaöryggi auk þess sem nýtt starfsfólk fær sérstaka þjálfun.
Auk skyldufræðslu sækir starfsfólk þjálfun við hæfi, ýmist í lærdómssetri sem við rekum í samstarfi við systurfélög okkar á Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjunum, á vefnum eða hjá öðrum aðilum. Þá sóttu löggildir endurskoðendur og innri endurskoðendur fræðslu í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru til að viðhalda löggildingu og vottun.