Vörumerki
Vörumerki er sérkenni fyrirtækis og leið þess til að skera sig úr fjöldanum. Það er þess virði að huga að vörumerki fyrirtækisins frá byrjun og mögulega leita eftir áliti sérfræðinga. Góðu fréttirnar eru að enginn skortur er á hæfileikaríkum og skapandi hönnuðum á Íslandi.
Til þess að fyrirtæki geti stækkað og orðið sjálfbært verður það að snúast um meira en að selja vörur og/eða veita þjónustu. Ekki er síður mikilvægt að búa til sterkt vörumerki. Hugleiddu eftirfarandi atriði þegar þú vinnur að auðkennum fyrirtækisins:
Nafn vörumerkis
- Veldu nafn sem höfðar til viðskiptavina þinna – ekki aðeins þín.
- Veldu nafn sem vekur jákvæðar hugsanir.
- Ekki velja nafn sem er of langt eða ruglingslegt.
- Hugleiddu hvort þú viljir hafa lýsandi nafn eða ekki. Það eru kostir og gallar við báðar leiðir.
- Gakktu úr skugga um að vörumerkið sé laust. Leitaðu meðal vörumerkja.
Einkenni vörumerkisins er í framhaldinu byggt í kringum nafn vörumerkisins.
Einkenni vörumerkis
- Vörumerkið ætti helst að vera auðgreinanlegt og eftirminnilegt.
- Það ætti að endurspegla gildi rekstursins og menningu.
- Það ætti ennfremur að höfða til lykilviðskiptavina þinna.
- Mundu að því meira sem vörumerkið segir til um reksturinn því minni þörf er á að útskýra hann.
- Vertu viss um að einkenni vörumerkis geti haldið sér til lengri tíma því síðari tíma breytingar geta verið tímafrekar, dýrar og áhættusamar.
- Notaðu vörumerkið stöðugt, þar á meðal á heimasíðu þinni, tölvupósti og bréfsefni.
- Vörumerkið ætti að vera hluti af markaðsáætlun hjá fyrirtækinu.