Að eiga í viðskiptum erlendis

Viðskiptaumhverfi fyrirtækja fer stækkandi þar sem fjarlægðir skipta sífellt minna máli. Þeim íslensku fyrirtækjum fjölgar ört sem leita á erlenda markaði með vöru sína eða þjónustu eða í leit að fjármagni. Að leita út fyrir landsteinana getur haft mikinn ávinning í för með sér. Að sama skapi geta því fylgt ýmis vandamál og áhættur sem mikilvægt er að leita sér ráðgjafar um áður en lagt er af stað.

Hugaðu að þessu

  • Auk ákvörðunar um félagsform sem hentar þínum rekstri best þarf að huga að því hvernig skattlagning rekstursins kemur til með að verða, bæði í því landi sem starfsemin fer fram og þegar ávinningur af henni er fluttur heim.
  • Flutningur á eignum og starfsfólki gætu haft í för með sér einhverjar skattalegar afleiðingar fyrir fyrir- tækið eða einstaklingana.
  • Reglur um milliverðlagningu innihalda þær kröfur sem gerðar eru til verðlagningar viðskipta milli tengdra aðila í skattalegu tilliti.
  • Tvísköttunarsamningar eru milliríkjasamningar sem koma í veg fyrir að sömu tekjur séu marg- skattlagðar. Ekki hafa öll lönd gert tvísköttunarsamninga sín á milli. Á RSK.is má finna lista yfir þá tvísköttunarsamninga sem Ísland hefur gert (rsk.is).
  • Mun þurfa að flytja starfsfólk erlendis? Er það tilbúið til þess og hvað mun það kosta? Er hagstæðara að ráða erlent starfsfólk?
  • Hversu vel hafa erlend lög og reglur sem gilda um atvinnureksturinn verið skoðuð? Eru fyrirsjáanleg þau áhrif sem breytt lagaumgjörð mun hafa á reksturinn?
  • Erlendar tekjur og gjöld munu hafa í för með sér gengisáhættu í rekstrinum. Hve mikil er þessi áhætta og er hægt að lágmarka hana með einhverju móti?
  • Aldrei skal vanmeta áhrif tungumáls og ólíkrar menningar þegar verið er að hefja rekstur á nýjum mörkuðum.
  • Hvert mun fjármagn til rekstursins erlendis vera sótt? Er hægt að fjármagna reksturinn hér á landi?

Þegar verið er að vega og meta það ríki sem er ákjósanlegast að starfa í, þarf að hafa í huga alla ofangreinda þætti. Því til viðbótar eru eftirfarandi atriði mikilvæg:

  • Að hvaða mörkuðum býður staðsetningin aðgang að?
  • Auðveldar staðsetningin aðgang að fjármagni?
  • Er boðið upp á ívilnanir eða skattaafslætti fyrir fyrirtæki sem stofnsetja sig þar?
  • Er löng reynsla fyrir því að erlend fyrirtæki hafi náð að dafna í landinu?
  • Hver er kostnaður þess, og þá sérstaklega skattalegur, að innleysa fjárfestingu í landinu?

Ekki má gleyma að nýta ráðgjafa og aðra tengiliði til upplýsingaöflunar um nýja markaði. Þessir aðilar geta án efa nýtt tengslanet sitt til að opna dyr og auðvelda ferlið.

Að sækja á nýja markaði býður upp á mikil tækifæri. Varast skal þó að vanmeta þær hindranir sem þarf að yfirstíga á leiðinni. Þær skal íhuga vel áður en lagt er af stað. Starfsfólk KPMG býr yfir mikilli reynslu á þessu sviði og er ávallt reiðubúið að aðstoða.