Að búa til viðskiptaáætlun
Góð viðskiptaáætlun er ekki einungis lykilatriði við fjármögnun. Hún er einnig mikilvæg til að útskýra hugmyndina fyrir starfsmönnum, fjárfestum og samstarfsaðilum. Viðskiptaáætlunin er líka nokkurs konar vegvísir yfir hvernig þú sérð viðskiptahugmyndina þróast.
Vinnan við að undirbúa og fullvinna viðskiptaáætlun er gagnleg og kallar á að þú afmarkir hugmyndina með skýrum hætti og greinir helstu þætti sem máli skipta við þróun hennar.
Í viðskiptaáætlun ætti að felast:
- Stutt lýsing á markaðsaðstæðum, þeirri vöru eða þjónustu sem verið er að bjóða upp á, stjórnendateyminu og meginlínum í fjármálum.
- Félagið; saga, stjórnendur, hluthafar.
- Varan; eiginleikar, gæði, afhendingarmáti.
- Markaðurinn; stærð, líklegir viðskiptavinir, samkeppni.
- Sölu- og markaðsmál; markaðsáætlun, verðlagning, leiðir á markað.
- Stjórnendateymið; núverandi þekking, reynsla og framtíðarþarfir, ytri ráðgjafar.
- Tæknimál; vörulýsing, tæknilegir þættir, fjárfestingaþörf, viðhald og þjónusta.
- Fjárhagsupplýsingar; sögulegar og áætlaðar rekstrarupplýsingar, efnahagsreikningur, forsendur sjóðstreymisáætlunar, fjárþörf, fjármögnun og útgöngustefna.
Að auki
- Forsendur í rekstraráætlunum eiga að endurspegla og vera í samræmi við aðrar upplýsingar í viðskiptaáætluninni. Verið eins nákvæm og unnt er.
- Verið varfærin þegar þið gefið ykkur forsendur, sérstaklega varðandi þróunarkostnað og hversu langan tíma það tekur að skapa tekjur.
- Gerið næmnigreiningu á lykilforsendum.
- Setjið ykkur markmið og mælikvarða í viðskiptaáætluninni. Það hjálpar ykkur að halda fókus. Ef þið getið náð áföngum og staðist mælikvarða í samræmi við áætlun sýnir það væntanlegum fjárfestum fram á einbeitni ykkar og færni.
- Þó þið veljið þá leið að útvista vinnu við einstaka þætti viðskiptaáætlunarinnar er afar mikilvægt að þið séuð inni í öllum meginþáttum hennar. Þið þurfið sjálf að geta útskýrt hana.
- Gætið þess að uppfæra viðskiptaáætlunina eftir því sem við á og nauðsynlegt er.