Á erfiðum tímum ná kvenleiðtogar árangri með þrautseigju, aðlögunarhæfni og aukinni stafrænni hæfni.

KPMG kynnti nýlega niðurstöður alþjóðlegrar rannsóknar á viðhorfi kvenna í stjórnunarstöðum, en rannsóknin nær til 475 kvenleiðtoga í 46 löndum. Ísland var í fyrsta sinn meðal þátttökulanda og því er hægt að bera saman viðhorf kvenna í stjórnunarstöðum hér á landi við viðhorf kvenna á alþjóðlegum vettvangi. Niðurstöðurnar voru kynntar á morgunverðarfundi í höfuðstöðvum KPMG í Borgartúni 27.

Bjartsýni einkennir niðurstöður

Helstu niðurstöður rannsóknarinnar sýna almenna bjartsýni kvenleiðtoga um allan heim um framtíð og vöxt fyrirtækja og eigin hagkerfa þó að aðstæður til skemmri tíma í alþjóðahagkerfinu einkennist af óvissu og óstöðugleika. Konur á Íslandi eru almennt mjög bjartsýnar um vaxtarmöguleika Íslands til lengri tíma. Helstu efnahagslegu áskoranir kvenna eru vendingar í alþjóðastjórnmálum og óvissa varðandi þróun alþjóðahagkerfa, og á það jafnt við um konur á Íslandi sem og úti í heimi. Hafa þessir þættir tekið fram úr þáttum eins og loftslagsmálum og mannauðsmálum sem voru ofar á baugi í fyrri könnunum. Í þessum nýja veruleika leggja kvenleiðtogar mikla áherslu á að sýna aðlögunarhæfni og að bregðast hratt og rétt við aðstæðum hverju sinni. 

Skoða skýrslu

Global Female Leaders Outlook 2025


Alþjóðleg rannsókn KPMG á viðhorfi kvenna í stjórnunarstöðum.




Skoðaðu skýrsluna hér


Fjárfesting í tækni og gervigreind

Niðurstöður sýna að konur í stjórnunarstöðum um allan heim leggja mun meiri áherslu en áður á fjárfestingu í nýrri tækni til að umbreyta rekstri og ná árangri. Meirihluti þátttakenda í rannsókninni á Íslandi forgangsraðar fjárfestingu í tækni ofar en að fjárfesta í hæfni starfsfólks, og samræmist það alþjóðlegu niðurstöðunum.  Á sama tíma hafa konur um allan heim væntingar um að gervigreind fækki ekki störfum almennt en muni þó samhliða kalla á aukna þjálfun starfsfólks til að ná fram meiri skilvirkni. Þá segja þátttakendur að hraði í tækniþróun muni leiða til aukinnar hættu á netárásum og leggja kvenleiðtogar mikla áherslu á að tryggja netöryggi hjá sínum fyrirtækjum. Athygli vekur að konur í stjórnunarstöðum á Íslandi telja fyrirtæki sín almennt minna viðbúin netárásum en kollegar þeirra á alþjóðlegum vettvangi. 

Sjálfbærni ekki eins ofarlega á baugi og áður

Á alþjóðavísu telja flestir stjórnendur að bætt viðskiptasambönd og sterkari ímynd fyrirtækis eða vörumerkis verði helstu áhrifavaldar sjálfbærnistefnu næstu þriggja ára. Á Íslandi eru konur í stjórnunarstöðum þó ekki eins sammála þessari sýn. Þær leggja meiri áherslu á þætti eins og fjármagnsúthlutun, uppbyggingu viðskiptasambanda, að laða að framtíðarstarfsfólk og að skapa virði fyrir hluthafa. Þrátt fyrir þessar væntingar segja færri en þriðjungur íslenskra þátttakenda að sjálfbærni hafi verið innleidd að fullu í rekstur fyrirtækis þeirra með það að markmiði að auka verðmætasköpun. Mikilvægasti drifkrafturinn til að hraða framgangi ESG-stefnu er talinn felast í aukinni mælingu og stjórnarháttum sem byggja á öflugri og gagnsærri nálgun. Það eru því veruleg tækifæri til að efla raunverulegt hlutverk sjálfbærni innan fyrirtækja: sem lykilþátt í framtíðarhagkvæmni og verðmætasköpun.

Skoða skýrslu

Samanburður á alþjóðlegum niðurstöðum og niðurstöðum frá íslenskum kvenstjórnendum.


Glærur frá kynningu KPMG á Íslandi.




Skoðaðu glærurnar hér


Vinnusemi, leiðtogahæfileikar og tengslanet skipta miklu máli

Í rannsókninni kemur fram að eiginleikinn að leggja harðar af sér í meira krefjandi starfsumhverfi og það að sýna leiðtogahæfileika eru helstu þættir sem hafa áhrif á starfsframa kvenna í stjórnunarstöðum. Þó er áhugavert að sjá að konur á Íslandi leggja mun meiri áherslu á leiðtogahæfileika en í svarendur alþjóðlega en 70% íslenskra kvenna nefndu þetta sem mikilvægasta þáttinn. Þá leggja konur í stjórnunarstöðum mjög mikla áherslu á að viðhalda góðu persónulegu tengslaneti og telja það lang mikilvægasta þátt í því að ná árangri í starfsferli. Þetta á einnig við um íslenskar konur en 74% þeirra telja þetta mikilvægasta þáttinn. Hefur áhersla almennt á gott tengslanet aukist verulega síðustu sjö ár sem þessi könnun hefur verið framkvæmd.

Áreiti í gegnum netið er algengt

Konur í stjórnunarstöðum nýta samfélagsmiðla mjög mikið í tengslum við starf sitt, en á sama tíma hafa allt að ein af hverjum þremur konum alþjóðlega upplifað áreiti í gegnum netið eða orðið vitni að því. Þetta hlutfall er þó mun lægra meðal íslenskra kvenna, en einungis 15% segjast hafa orðið fyrir slíku áreiti eða upplifað það með öðrum hætti.  Helstu þættirnir sem nefndir voru meðal íslenskra kvenna voru hatursorðræða (60%) og ærumeiðingar eða falsaðir aðgangar (60%). 

Mynd af fundi
Mynd af fundargestum

Nánari upplýsingar veitir: