Íslenski kvikmyndaiðnaðurinn hefur tekið mikilvægum framförum í sjálfbærari framleiðslu með fyrstu Green Film vottuninni hérlendis og hlaut kvikmyndin Fjallið fyrstu vottunina. Er það fyrsti vísirinn að sjálfbærari framtíð iðnaðarins þar sem áhersla er lögð á sjálfbæra framleiðsluhætti. Helst það í hendur við leiðarljós Kvikmyndastefnu um að styrkja tengsl kvikmyndagerðar við markmið Íslands á sviði sjálfbærni.
Hvað er Green Film?
Green Film er leiðbeinandi handbók að vottun um sjálfbæra kvikmyndaframleiðslu. Handbókin er unnin á evrópskum vettvangi, hönnuð fyrir framleiðendur, opinbera kvikmyndasjóði og þjónustustofnanir, sjónvarpsstöðvar og streymisveitur. Kvikmyndamiðstöð Íslands, í samstarfi við Trentino Film Commission, hefur tekið handbókina í notkun og gefið út íslenska útgáfu.
Handbókin inniheldur ítarlegar leiðbeiningar um hvernig hægt sé að gera framleiðslu sjálfbærari með tilliti til umhverfis og fólks. Grunnskilyrði vottunar eru í höndum framleiðanda og sjálfbærnistjóra framleiðslunnar en þau eru annars vegar að útbúa sjálfbærniáætlun og hins vegar að móta skilvirka ferðaáætlun. Þar að auki er að finna önnur viðmið sem þarf að uppfylla til að hljóta vottunina.
Fjallið: Fyrsta verkefnið á Íslandi sem hlýtur Green Film vottun
Kvikmyndin Fjallið, sem skrifuð er og leikstýrt af Ásthildi Kjartansdóttur, er framleidd með viðmið Green Film að leiðarljósi. KPMG á Íslandi, leiðandi þekkingarfyrirtæki á sviði endurskoðunar og ráðgjafar, veitti óháða staðfestingu á skýrslu um fylgni við leiðbeiningar Green Film við gerð kvikmyndarinnar. Fjallið er fyrsta kvikmyndin á Íslandi til að hljóta slíka vottun sem markar nýtt upphaf í sjálfbærari framleiðsluháttum og er stórt skref í kvikmyndabransanum á Íslandi.
Ávinningur fyrir íslenskan kvikmyndaiðnað
Vænta má frekari vaxtar á sviði skapandi greina hér á landi, þ.á.m. kvikmyndagerðar. Meðal annars hefur ársvelta kvikmyndagerðar þrefaldast á síðasta áratug. Hins vegar ber að hafa í huga að slíkur vöxtur getur haft í för með sér neikvæð áhrif á umhverfið. Þá sérstaklega þar sem kvikmyndagerð felur gjarnan í sér mikla notkun raforku, álag á umhverfi og samfélag og losun gróðurhúsalofttegunda vegna flutnings og ferðakostnaðar.
Listgrein á tímamótum
Líta má á tilkomu sjálfbærra umgjarða eins og Green Film sem ákveðin tímamót fyrir listgreinina þar sem markviss skref eru tekin til að styrkja sjálfbæra innviði kvikmyndagerðar. Með þessari jákvæðu þróun er hægt að stuðla að því að kvikmyndagerð vaxi í sátt við umhverfismarkmið KMÍ og Íslands, og um leið efla ímynd hennar sem sjálfbær atvinnugrein.