Þessa dagana erum við á kaflaskilum er varðar upplýsingagjöf fyrirtækja þar sem markaðurinn er farinn að krefjast fyllri myndar af frammistöðu félaga. Auk upplýsinga um fjárhagslegt gengi vill markaðurinn fá upplýsingar um frammistöðu fyrirtækja í sjálfbærnimálum. Fyrir liggur að gerðar verða lagalegar kröfur til stærri félaga um gerð og staðfestingu sjálfbærniskýrslna með innleiðingu CSRD reglugerðar Evrópusambandsins en fram að því að innleiðingin tekur gildi hafa fyrirtæki val um það hvernig þau mæta væntingum markaðarins.

Um hvað snýst valið?

Umhverfið sem við erum vön er umhverfi fjárhagsupplýsinga í formi ásreikninga sem eru endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda. Áritunin er stöðluð og almennt er góð þekking á ársreikningum hjá fyrirtækjum og notendum ársreikninga og samræmi í væntingum til þess hvað felst í áritun endurskoðanda.

Almennt er  sjaldgæft að endurskoðandi geri athugasemdir í áritun sinni og langoftast er um að ræða svokallað álit án fyrirvara þar sem endurskoðandinn staðfestir að ársreikningurinn gefi glögga mynd af rekstri, efnahag og sjóðstreymi.

Þegar kemur að staðfestingu sjálfbærniskýrslna er umhverfið annað. Valið sem fyrirtæki standa frammi fyrir er tvískipt. Bæði er hægt að velja hvaða hluta skýrslunnar skal staðfesta og einnig þarf að ákveða hversu mikla staðfestingu fyrirtækið vill fá á upplýsingarnar. Almennt gildir að því meiri sem staðfestingin er því meira traust ríkir til upplýsinganna.

Lagalega krafan í CSRD verður sú að til að byrja með verður gerð krafa um að öll sjálfbærniskýrslan verði staðfest með svokallaðri takmarkaðri vissu (e. limited assurance) en síðar er stefnt að því öll skýrslan verði staðfest með svokallaðri nægjanlegri vissu (e. reasonable assurance). Alþjóðlega staðlaráðið (IAASB) hefur samið staðla um hvernig standa skuli að staðfestingum sem þessum og vinnur nú að úrbótum þeirra staðla.

Þar til að því kemur að gerð verður krafa um að endurskoðendur áriti alla sjálfbærniskýrsluna með takmarkaðri vissu snýst valið um eftirfarandi kosti:

  • Staðfestingu með takmarkaðri vissu á valda hluta sjálfbærniskýrslunnar
  • Staðfestingu með takmarkaðri vissu á alla skýrsluna
  • Staðfestingu með takmarkaðri vissu á hluta af skýrslunni og staðfestingu með nægjanlegri vissu á valda hluta
  • Staðfestingu með nægjanlegri vissu á alla skýrsluna

Þegar kemur að því að krafa verði gerð um staðfestingu með nægjanlegri vissu á alla skýrsluna sem væntanlega verður um 2028 eða 2029 verður ekki lengur um neitt val að ræða.

Verulegur munur er á því hversu mikil staðfesting felst í hvorri tegund staðfestinga fyrir sig. Til einföldunar má líkja staðfestingu með nægjanlegri vissu við endurskoðun ársreikninga og staðfestingu með takmarkaðri vissu við könnun árshlutareikninga. Um töluverða einföldun er samt að ræða þar sem könnun ársreikninga byggir á endurskoðun ársreiknings fyrra árs sem framkvæmd var sex mánuðum fyrr. Staðfesting með takmarkaðri vissu er því umfangsmeiri og annars eðlis en könnun árshlutareikninga. Staðfesting með takmarkaðri vissu felst að mestu í fyrirspurnum og greiningaraðgerðum auk skoðunar á ferlum og gögnum á meðan staðfesting með nægjanlegri vissu inniheldur einnig beina skoðun á eftirlitsaðgerðum og gögnum og staðfestingu þeirra.

Við valið er gott að hafa í huga að byrja smátt og bæta síðan við eftir því sem þekkingin og reynslan eykst. Einnig er mikilvægt að einbeita sér að því sem máli skiptir og gera þeim háttum hærra undir höfði sem fyrirtækið hefur metið mikilvæga. Sum fyrirtæki hafa viljað vera leiðandi í þessum málum og hafa látið staðfesta alla skýrsluna með nægjanlegri vissu en eru nú að reka sig á það að auknar og skýrari kröfur í stöðlum um skýrslugerð eru að valda því að bakka þarf aðeins í staðfestingunni á meðan úrbætur eru gerðar í skýrslugerð.

Vilji fyrirtæki vera leiðandi og fara af stað í að láta staðfesta alla skýrsluna með nægjanlegri vissu þá er það vel. Kosturinn við að við búum ennþá við val á umfangi staðfestingar er sá að ef í ljós kemur að ekki reynist hægt að staðfesta alla skýrsluna, þá er hægt að bakka og skilgreina umfangið þrengra.

Óháð staðfesting eykur traust og gagnsemi upplýsinga og því skiptir miklu máli að huga vel að vali á staðfestingarkosti.

Þekking til að velja og þekking til að nýta

Til þess að geta tekið ákvörðun þarf að vera til staðar þekking á viðfangsefninu, ekki bara á sjálfbærnivegferð fyrirtækisins heldur líka á væntingum og þörfum hagaðila og þeim reglum sem gilda um skýrslugjöf og staðfestingu þeirra. Mikilvægt er því að þeir sem taka þurfa ákvörðun hugi vel að þekkingaröflun í þessum málum.

Notendur sjálfbærniupplýsinga þurfa einnig að huga að þekkingaröflun sinni. Þegar um er að ræða áritun endurskoðenda á sjálfbærniskýrslur er málum öðruvísi fyrir komið heldur en við áritun á ársreikninga. Í árituninni kemur umfangið fram, þ.e. hvað var til skoðunar, hluti skýrslunnar, öll skýrslan og umfang staðfestingar á hverjum tilgreindum hluta. Þetta getur verið áskorun fyrir lesendur sem eru vanir því að ársreikningurinn sé allur undir og endurskoðaður í heild sinni. Núna munu lesendur þurfa að lesa áritunina vandlega og glöggva sig á því hve víðtæk og hvers eðlis hin óháða staðfesting er áður en tekin er afstaða til virði staðfestingarinnar.

Ekki bara þurfa lesendur að átta sig á umfangi og eðli staðfestingarinnar heldur kemur einnig fram í skýrslu endurskoðandans hvaða aðgerðir voru framkvæmdar við staðfestingarvinnuna og eru þær ólíkar á milli fyrirtækja. Mikilvægt er að notendur skýrslunnar glöggvi sig á umfangi og eðli aðgerða til að koma í veg fyrir að væntingarbil skapist um hvað fólst í staðfestingarvinnunni og hafa í huga að með æfingunni skapast hæfni og sjálfstraust eykst.

Fyrirvarar í áritun endurskoðanda

Eins og áður kom fram er ekki algengt að endurskoðendur geri fyrirvara í áritun sinni á ársreikninga félaga og þegar það gerist getur verið að málið sé alvarlegt og að fyrirvarinn geti haft neikvæðar afleiðingar fyrir fyrirtækið.

Hvað varðar fyrirvara í áritun endurskoðenda á sjálfbærniupplýsingar þá er ekki ólíklegt að þær verði fyrst um sinn algengar. Skapast það af því að flest erum við á lærdómskúrfu sem er mjög skörp og þróun innan fyrirtækja mjög hröð og við munum ekki ná öllu rétt í fyrstu eða annarri tilraun. Það þýðir ekki að við eigum ekki að setja markið hátt, alls ekki, heldur þýðir það að við eigum að vera með raunhæfar væntingar um að það tekur tíma að tileinka sér nýja þekkingu og innleiða hana í ferla fyrirtækisins.

Þegar um er að ræða ársreikninga þá stemma þeir í debet og kredit og veruleg skekkja í fáum liðum getur hæglega valdið því að í heild sinni er ekki hægt að gefa álit án fyrirvara á reikninginn í heild sinni. Þegar um sjálfbærniupplýsingar er að ræða eiga önnur sjónarmið við, skekkja í frásögn af t.d. kynjahlutföllum í stjórn hefur ekki áhrif á það að útreikningur á losun sé rangur, þetta tvennt er eðlisólíkt og verður ekki lagt saman. Þetta hefur það í för með sér að hægt er að gera fyrirvara við afmarkaða þætti skýrslunnar „vandræðahlutann“ ef þörf er á án þess að það hafi áhrif á áreiðanleika annarra þátta sjálfbærniskýrslunnar.

Lesendur þurfa að átta sig á því hvað fyrirvarinn snýst um ef um hann er að ræða og líta á veikleikann sem tækifæri til úrbóta fyrir fyrirtækið. Ef sami fyrirvari hins vegar endurtekur sig ítrekað þá er það vísbending um að framþróun skorti hjá félaginu varðandi þann lið.

Hvað er mikilvægt?

Eins og við öll vitum er afar mikilvægt að fyrirtæki vandi sig við frásögn af sjálfbærnimálum sínum og einnig er mikilvægt að við förum að færa okkur í átt til aukinnar staðfestingar á upplýsingunum. Við alla vinnu tengda sjálfbærni þarf samt aðaláherslan að vera á aðgerðirnar sjálfar, hvað fyrirtækið er að gera til  að leggja sitt lóð á vogarskálarnar til að gera heiminn betri? Hver er stefnan og hvaða markmið hafa verið sett? Hvað er mikilvægt og hvað er það sem fyrirtækið ætti að setja á hliðarlínuna og ekki leggja áherslu á? Skýrslan er mikilvæg en hún er samt „bara“ frásögn af raunveruleikanum sem er það sem skiptir öllu máli.