Róbert Ragnarsson

Róbert Ragnarsson

Verkefnastjóri á ráðgjafarsviði

Stefna Alþingis, innviðaráðherra og Sambands íslenskra sveitarfélaga er að sveitarfélög sameinist í fjölmennari og öflugri einingar sem eru betur til þess fallnar að sinna lögbundinni grunnþjónustu og faglegri stjórnsýslu. Fyrir lok næsta kjörtímabils ættu engin sveitarfélög að hafa færri en 1.000 íbúa líkt og nýlegar breytingar á sveitarstjórnarlögum segja til um. Ein helsta áskorunin við sameiningu sveitarfélaga á Íslandi er hversu fámennt og dreifbýlt landið er. Af því leiðir að fjölmenn sveitarfélög verða óhjákvæmilega landstór og innan þeirra verða oft fleiri en einn byggðakjarni. 

Hvað skiptir íbúana mestu máli?

Við sameiningu fjögurra sveitarfélaga á Austurlandi, í það sem nú heitir Múlaþing, var þróað nýtt fyrirkomulag í stjórnskipulagi sveitarfélaga með tilkomu svokallaðra heimastjórna. Heimastjórnir eru nefndir sem ná yfir hluta sveitarfélags en tveir fulltrúar af þremur eru kjörnir með beinum hætti af íbúum viðkomandi svæðis. Á þann hátt er tryggt að þeir vinna í umboði íbúanna. Í Múlaþingi eru fjórar heimastjórnir, skipulagðar eftir eldri sveitarfélagamörkum. Markmið heimastjórnanna er að tryggja áhrif íbúa á ákvarðanatöku hins sameinaða sveitarfélags og veita þeim umboð til að sinna ákveðnum nærþjónustu verkefnum á sínu svæði eða byggð. Verkefni þeirra snúa einna helst að deiliskipulags-, umhverfis-, menningar- og landbúnaðarmálum. 

Dreifð ábyrgð og ákvarðanataka en aukið flækjustig

Dr. Eva Marín Hlynsdóttir prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands hefur birt niðurstöður rannsóknar sinnar á fyrirkomulagi heimastjórna í Múlaþingi í vorhefti tímaritsins „Stjórnmál og stjórnsýsla.“ Tímaritið má nálgast á hjá Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála.  Rannsóknin er sú fyrsta sem framkvæmd hefur verið og skapar mikilvægan grunn fyrir frekari rannsóknir í framtíðinni. Meðal niðurstaðna rannsóknarinnar er að markmið um dreifða ábyrgð og ákvarðanatöku hafa náðst með beinni kosningu íbúa í heimastjórnir. Það leiðir hins vegar til ákveðins flækjustigs við ákvarðanatöku í miðlægu stjórnsýslunni sem mikilvægt er að vera meðvituð um og bregðast við. Jafnframt veitir rannsóknin vísbendingar um hvaða verkefni heimastjórna eru umfangsmest og mikilvægust. Þar vega skipulagsmál mest en næstmestu máli skiptir heimild heimastjórna til að setja mál á dagskrá sveitarstjórnarfunda. Vesturbyggð hefur farið samskonar leið og Múlaþing en unnið er að innleiðingu heimastjórna samhliða sameiningarviðræðum við Tálknafjarðarhrepp.

Sveitarfélagið Stykkishólmur hefur auk þess sett upp dreifbýlisráð sem fer með tiltekin verkefni og er hluti fulltrúa kjörinn beinni kosningu af íbúum.

Nú er komin rúmlega tveggja ára reynsla af fyrirkomulaginu á Austurlandi og eru fleiri fjölkjarna sveitarfélög að undirbúa samskonar fyrirkomulag og sett hefur verið upp í Múlaþingi. Rannsóknin skapar þeim sveitarstjórnum grunn fyrir góðri ákvarðanatöku.

 

Hér má nálgast grein dr. Evu Marínar Hlynsdóttur