Aðalnámskrá
Aðalnámskrá er rammi skólastarfs á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi. Hún birtir heildarsýn um menntun og þá menntastefnu sem felst í lögum um leikskóla (nr. 90/2008), grunnskóla (nr. 91/2008) og framhaldsskóla (nr. 92/2008).
Aðalnámskrá er leiðarvísir um áherslur menntunar þjóðarinnar og er ætlað að veita öllum þeim sem koma að uppeldi, fræðslu og menntun hennar upplýsingar um tilgang og starfsemi leik-, grunn- og framhaldsskóla. Hún er ætluð skólastjórnendum, kennurum, skipuleggjendum skólastarfs og öllu starfsfólki skólakerfisins. Auk þess er hún upplýsandi fyrir nemendur, foreldra og aðra sem áhuga hafa á menntamálum.
Hlutverk sveitarfélaga
Það er hlutverk sveitarfélaga að útfæra eigin menntastefnu í samræmi við áherslur aðalnámskrár hverju sinni. Almenn stefnumótun í menntun barna og ungmenna er bundin í lög skv. 5. gr. grunnskólalaga og 4. gr. leikskólalaga. Sveitarfélög eru rekstraraðilar leik- og grunnskólanna og þau marka sína stefnu í fræðslumálum út frá sérstöðu sinni, en samt þannig að tryggt sé að menntun barna og ungmenna sé í samræmi við ramma aðalnámskrár. Þannig þarf menntastefna sveitarfélags að vera brú milli aðalnámskrár og lögbundins hlutverks leik- og grunnskóla og þeirrar sýnar sem sveitarfélag hefur á menntun yngstu íbúa sinna.
Skólum og starfsfólki þeirra ber að fylgja ákvæðum aðalnámskrár við skipulagningu skólastarfs og þar með tryggja börnum og ungmennum aðstæður til náms og þroska í samræmi við gildandi lög og menntastefnu. En jafnframt birtist í skólastarfinu sá metnaður sem sveitarfélag hefur fyrir menntun. Skýr menntastefna sveitarfélags er því mikilvægt tæki til að leiðbeina starfsfólki leik- og grunnskóla um það hvernig útfæra skuli menntastefnu þjóðar í viðkomandi sveitarfélagi.
Menntastefna/Fræðslustefna
Mennta- eða fræðslustefna er aðeins ein stefna af mörgum sem sveitarfélag setur til að marka heildarsýn sveitarfélagsins. Menntastefna hefur hins vegar þá sérstöðu að hún er snertiflötur sveitarfélagsins við mjög marga íbúa þess auk þess sem hún veitir tækifæri til samtals við framtíðaríbúa sveitarfélagsins, þ.e. börn og ungmenni. Menntastefnan snýst jú fyrst og fremst um þau.
Faglegt utanumhald við mótun stefnu sem tryggir víðtækt samráð og markvisst samtal ólíkra aðila er lykillinn að farsælli stefnumótun í mennta- og fræðslumálum. Veita þarf börnum og ungmennum tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Í því felst einnig þjálfun í beinni þátttöku í ákvarðanatöku og því mikilvægt tækifæri til menntunar í lýðræðisþjóðfélagi.
Endurskoðun og breytingar á menntastefnu
Núgildandi aðalnámskrá var gefin út 2011. Mennta- og barnamálaráðuneyti setti árið 2019 fram áætlun um reglulega endurskoðun greinasviða aðalnámskrár grunnskóla og síðan þá hafa greinasvið verið endurskoðuð sérstaklega án þess að almennur hluti aðalnámskrár hafi breyst. Það er í anda stöðugra endurbóta að slík rýni fari fram. Örar breytingar í stafrænu námsumhverfi kalla á nýjar leiðir þó svo heildarsýn menntunar taki ekki stórvægilegum breytingum.
Sveitarfélög þurfa þannig að vera vakandi fyrir reglulegri endurskoðun fræðslu- eða menntastefnu. Stöðug rýni og markvisst samráð tryggir að sú menntun sem sveitarfélög veita börnum og ungmennum sé í takti við ramma aðalnámskrá en jafnframt mæti umbreytingum samfélagsins á hverjum tíma.