Með mikilli einföldun, og á hæfilega léttum nótum, er hægt að halda því fram að sveitarstjórnarfólk sé aðeins sammála um tvennt. Annars vegar að ríkið sé ósanngjarnt og hins vegar að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga sé flókinn og óskilvirkur. Í breytingaverkefnum er mikilvægur upphafspunktur að átta sig á því hvort breytinga er þörf. Sveitarstjórnarfólk virðist sammála um að núverandi staða sé ekki góð og breytinga sé þörf. Við getum því lagt af stað en haft ólíkar hugmyndir um leiðir og markmið.

Af hverju jöfnunarkerfi?

Nú hafa verið lagðar fram tillögur til að einfalda jöfnunarkerfið með því að sameina núverandi tekjujöfnunar-, útgjaldajöfnunar- og fasteignaskattsframlög í eitt framlag.  Tilgangur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga er að jafna mismunandi útgjaldaþörf og skatttekjur sveitarfélaga. Kerfi sem hafa þann tilgang að jafna verða aldrei óumdeild. Erfitt er að ná fullkominni sátt um að flytja fé frá einum aðila til annars, hvort sem það eru einstaklingar eða sveitarfélög.  

Samskonar jöfnunarkerfi eru til staðar í hinum norrænu ríkjunum, en þau taka mið af aðstæðum í hverju ríki. Þegar íslenska jöfnunarkerfið var sett á fót voru sveitarfélögin rúmlega 200 og flest með mjög fáa íbúa. Síðan þá hafa sveitarfélögin tekið við umfangsmiklum nærþjónustuverkefnum á borð við rekstur grunnskóla og þjónustu við fólk með fötlun. Sveitarfélögum hefur jafnframt fækkað í 64 og stefna stjórnvalda er að þeim fækki enn frekar á næstu árum.

Markmið nýs jöfnunarlíkans

Eftir því sem aðstöðumunur aðilanna í kerfinu er meiri, því flóknara verður að jafna milli þeirra. Ef öll sveitarfélög í landinu byggju við sömu aðstæður væri ekki þörf á jöfnunarkerfi. Það gefur því auga leið að verkefni starfshópsins sem vann að fyrrnefndum tillögum var ekki öfundsvert. Að finna sanngjarna leið til að jafna mismunandi útgjaldaþörf og skatttekjur í kerfi sem spannar frá einingu með rúmlega 40 íbúa þar sem búa engin börn, yfir í einingu með nærri 140 þúsund íbúa þar sem eru um 80 leikskólar. Í sumum sveitarfélögum búa allir íbúar innan við kílómeter frá verslun, þjónustu og grunnskóla, en í öðrum sveitarfélögum eru íbúar dreifðir á svæði sem samsvarar yfir 10% af flatarmáli Íslands.  

Markmið hins nýja jöfnunarlíkans er að ná betur utan um útgjaldaþörf sveitarfélaga heldur en fyrra líkan gerði og gera þannig sveitarfélögum kleift að standa á jafnari grunni en áður, að teknu tilliti til land- og lýðfræðilegra þátta auk fjárhagslegs styrks, til að sinna sínum lögbundnu verkefnum. Tillagan, samanborið við fyrri útfærslu, virðist ná betur að fanga útgjaldaþörf sveitarfélaga og miðla fjármagninu með sanngjarnari hætti til þeirra sveitarfélaga sem veita íbúum lögbundna þjónustu og búa við flóknar landfræðilegar aðstæður. Tillagan er auk þess í samræmi við stefnu stjórnvalda um að ekkert sveitarfélag hafi færri en 1.000 íbúa árið 2026 og mætti því líta á hana sem hvata til að sveitarfélög sameinist í fjölmennari einingar. Hún er hins vegar ekki gallalaus og ljóst af umsögnum sveitarfélaga að sjónarmiðin eru mörg og mismunandi eins og við má búast.