Við erum þekkingar- og þjónustufyrirtæki þar sem verðmæti okkar liggja fyrst og fremst í færni og þekkingu starfsfólk. Mikilvægisgreining okkar sýnir þetta glögglega þar sem félagslegi þátturinn er sá sem við getum haft sem mest áhrif í gegnum, ekki síst því sem snýr að starfsfólki.

Í gegnum tíðina höfum við byggt starfsemi okkar á frekar einsleitum hópi starfsfólks, rétt eins og hjá mörgum sambærilegum vinnustöðum hér á landi. Á síðustu árum höfum við lagt okkur fram við að auka fjölbreytileika starfsfólks enda teljum við að með hópi með ólíkan reynsluheim, þekkingu og sjónarmið getum við sem best þjónað viðskiptavinum okkar og samfélaginu.

Á starfsárinu 2022 innleiddum við nýja vinnustaðastefnu byggða á breyttum atvinnumarkaði og væntingum starfsfólks okkar. Leiðarljós stefnunnar eru traust, góð samskipti og sveigjanleiki. Áhersla stefnunnar er að bjóða upp á fjölbreytt, heilbrigt og hvetjandi starfsumhverfi þar sem starfsfólk getur verið það sjálft, unnið við það sem því finnst skipta mála, aflað sér áframhaldandi þekkingar og látið til sín taka. Auk stefnunnar settum við í loftið verkefni undir heitinu Betri saman. Meginmarkmið þess er að nýta breiða þekkingu starfsfólks okkar til hagsbóta fyrir viðskiptavini og samfélagið. Við höfum unnið að þessu markmiði með því að vinna markvisst að auknu samstarfi milli hópa og sviða fyrirtækisins í verkefnum en ekki síður með bættri og sveigjanlegri vinnuaðstöðu, nýjum samskiptatækjum og aukinni samveru.

Í anda þess að geta verið við sjálf og vinna að auknum fjölbreytileika og inngildingu (e. inclusion) ólíkra einstaklinga buðum við upp á tvö fræðsluerindi á árinu sem allt starfsfólk fékk boð á. Annars vegar var fræðsluerindi um jákvæða karlmennsku og hins vegar um hinseginleikann á vinnumarkaði, en í báðum erindum var fjallað um hvernig einstaklingar geti stutt við aukið jafnrétti. Þá tók KPMG á heimsvísu þátt í Pride mánuði í júní með viðburði sem opinn var öllu starfsfólki á heimsvísu. Á viðburðinum sögðu hinsegin einstaklingar í starfi hjá KPMG sögu sína og fjallað var um hvernig við getum öll búið til öruggt og stuðningsríkt starfsumhverfi. 

 

Áhrifamælaborð stefnu um fólk og félagslega þætti

áhrifamælaborð fólk