KPMG hefur unnið ítarlega greiningu á fjárhagsstöðu ferðaþjónustunnar fyrir Ferðamálastofu og eru niðurstöður hennar kynntar í skýrslu sem gefin hefur verið út.
Byggir hún á ársreikningum ríflega tvö þúsund ferðaþjónustufyrirtækja fyrir árið 2021, utan flugs og flugtengdrar starfsemi. Auk þess er byggt á margvíslegum upplýsingum um rekstrarumhverfi og drifkrafta ferðaþjónustunnar.
Þessi skýrsla ætti að gefa góða mynd af rekstri ferðaþjónustufyrirtækja eftir lok heimsfaraldursins og hvort þau geti staðið undir skuldbindingum sem á þeim hvíla. Skýrslan var kynnt á opnum veffundi Ferðamálastofu og KPMG í dag. Þetta er fjórða skýrslan sem Ferðamálastofa gerir með KPMG til að meta fjárhag ferðaþjónustunnar.
Viðspyrnan árið 2022
- Seigla og sveigjanleiki ferðaþjónustu fyrirtækja ásamt mótvægisaðgerðum ríkisins gerðu það að verkum að álíka fjöldi fyrirtækja var til staðar 2022 og árið 2019. Þess vegna var afkastageta til staðar til að mynda viðspyrnuna þegar ferðamenn tóku að streyma aftur til landsins.
- Eftir takmörkuð ár í ferðaþjónustu 2020 og 2021 er áætlað að rekstrarárið 2022 hafi verið gott. Fjöldi ferðamanna var 1,7 milljón sem nemur 85% af fjöldanum 2019. Gistinætur voru hinsvegar fleiri árið 2022 en 2019 meðal annars vegna lengri dvalartíma.
- Áætlað er að heildartekjur ferðaþjónustunnar utan flugs á árinu 2022 hafi numið 409 ma.kr., sem eru hærri tekjur en fyrir faraldur. Áætlað er að hagnaður greinarinnar árið 2022 hafi verið um 18,8 ma.kr.
Skuldastaðan batnar en áskoranir framundan
- Fjárfestingar héldu áfram í faraldrinum þrátt fyrir mótlæti.
- Skuldir hafa hækkað, en ef afkomubati 2022 varir næstu ár virðist skuldastaða fyrirtækja í ferðaþjónustu viðráðanleg.
- Aukinn vaxtakostnaður, verðlagshækkanir, veiking krónunnar ásamt átökum á vinnumarkaði geta þó valdið því að skuldavandi aukist á rekstrarárinu sem framundan er.
Viðspyrnuárið 2022 var að mörgu leyti gott og svo virðist sem atvinnugreinin sé að ná fyrri styrk. Afkoma ársins var góð, betri en margir þorðu að vona. Í ljósi þeirra áskorana sem framundan eru fyrir ferðaþjónustu á Íslandi þá er mikilvægt að við snúum bökum saman og ígrundum vel þær aðgerðir sem nú eru í undirbúningi og tryggjum farsæla og sjálfbæra framtíð greinarinnar, landi og þjóð til hagsbóta. Við lítum svo á að niðurstaða þessarar vinnu og sú mynd sem hér er dregin upp sé mikilvægt framlag í þá vinnu.
Það er ánægjulegt að sjá þá seiglu og sveigjanleika sem ferðaþjónustan sýndi í gegnum faraldurinn, en jafnframt að mótvægisaðgerðir stjórnvalda skiluðu árangri. Að faraldrinum loknum voru fyrirtækin enn til staðar og gátu aukið aftur afköst til að taka við þeim mikla fjölda ferðamanna sem streymdi til landsins frá og með öðrum ársfjórðungi 2022. Fyrir vikið var viðreisnin öflug og framtíð greinarinnar aftur björt.