KPMG vann skýrslu um betri vinnutíma í dagvinnu fyrir Fjármála – og efnahagsráðuneytið. 

Í lykilniðurstöðum skýrslunnar kemur fram að starfsfólk er almennt ánægt með styttingu vinnutíma og gefa kannanir til kynna ánægju með sveigjanleika, starfsánægju og vinnustaðamenningu. Til skamms tíma litið þá hefur stytting vinnuvikunnar ekki hækkað launakostnað þeirra 30 stofnana sem stöðumatið nær til.

Þó eru þættir eins og áhrif á skilvirkni og gæði þjónustu óljós en nýting árangurs- og framleiðni mælikvarða er heilt yfir ábótavant. Meginmarkmið vinnutímabreytinga um gagnkvæman ávinning týndust í umræðunni um neysluhlé. Almennt var áherslum stéttarfélaga um hámarksstyttingu fylgt án þess að skilgreina mælanlega mælikvarða og meta áhrif verkefnisins Betri vinnutíma á skilvirkni og gæði þjónustu sem var forsenda vinnutímastyttingar.

Þá hafa margar stofnanir ekki stærð, mannauð og skipulag til að takast á við jafn viðamiklar breytingar og stytting vinnuvikunnar fól í sér og stofnanir eru að leysa sömu viðfangsefnin hver í sínu horni í stað þess að verja tíma sínum og fjármunum meira í virðisaukandi verkefni.

Allir styttu vinnutíma en eftirfylgni með markmiðum samningsins um gagnkvæman ávinning, skilvirkni og gæði þjónustu sátu eftir. Alls fóru 77% stofnanir í hámarks vinnutímastyttingu í fyrsta skrefi þrátt fyrir að stjórnendum ríkisstofnana hafi verið ráðlagt að fara hægt í sakirnar og innleiða styttingu vinnuvikunnar í skrefum samhliða vinnu við umbætur á rekstri og þjónustu.

Ljóst er að áhrifa stéttarfélaga gætir í þessu samhengi þar sem skilaboðin voru oft á þann veg að hámarks stytting væri kjarasamningsbundinn réttur hvers og eins. Með því móti var starfsfólki og stjórnendum stillt upp í sitthvort liðið og markmið um gagnkvæman ávinning týndist í umræðunni um neysluhlé.

Sjá nánar í skýrslu KPMG um styttingu vinntíma