Fjölmenni var á fundi KPMG sem haldinn var þriðjudaginn 21. júní um framtíð rafmynta

Á fundinum fjölluðu þau Sigurvin Sigurjónsson og Björg Anna Kristinsdóttir frá KPMG ásamt þeim Gísla Kristjánssyni frá Monerium og Daða Kristjánssyni frá Viska Digital Assets um rafmyntir frá ýmsum sjónarhornum. Eftir góð erindi sköpuðust líflegar umræður í pallborðsumræðum þar sem þau Björg Anna, Daði og Gísli ræddum málin ásamt Dr. Ásgeiri Brynjari Torfasyni sérfræðingi fjármálum. 

Í máli Sigurvins, sem fjallaði um eðli rafmynta, kom fram að eiginleikar rafmynta eru töluvert frábrugðnir eiginleikum hefðbundinna gjaldmiðla. Til dæmis er magn rafmynta almennt fyrirfram ákveðið á meðan magn hefðbundinna gjaldmiðla ákvarðast af seðlabönkum og innlánsstofnunum við lánveitingar. Miðlun rafmynta er alltaf með rafrænum hætti en þær flökta mun meira í verði en gjaldmiðlar á borð við krónuna.  Kostnaður við rafmyntir er fyrst og fremst bundinn við gröft eftir þeim (e. mining) á meðan kostnaður við hefðbundna gjaldmiðla er helst myntslátta og rekstur greiðslumiðlunarkerfis, banka og eftirlitsstofnana.  

Gísli Kristjánsson hjá Monerium ræddi í erindi sínu um notkun bálkakeðjutækninnar við greiðslumiðlun og benti á að þóknanir í hefðbundinni greiðslumiðlun væru hærri en í tilvikum rafmynta þar sem búið væri að taka út milliliði. 

Daði Kristjánsson hjá Visku Digital Assets fjallaði um rafmyntir sem fjárfestingu. Í erindi hans kom m.a. fram að rafmyntir eru vaxandi eignaflokkur sem byggir á bálkakeðjutækni og að sífellt fleiri stofnanafjárfestar og fjármálafyrirtæki eru farin fjárfesta í þessum geira. Í máli Daða kom fram að eignasöfn sem innihalda 5% - 15% vigt af Bitcoin hafi sögulega náð betri ávöxtun en vísitölur helstu eignarflokka, þrátt fyrir þá skörpu lækkun sem orðið hafi á rafmyntinni síðustu misseri.

Að lokum fjallaði Björg Anna Kristinsdóttir lögfræðingur hjá KPMG Law um álitaefni og áskoranir sem tengjast rafmyntum og benti m.a. á að þekkt væri að rafmyntir hefðu verið nýttar í skipulagðri glæpastarfsemi og peningaþvætti en nýverið og voru gerðar breytingar, hérlendis, á lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka  sem ætlað er að ná betur yfir sýndareignir.. Í máli Bjargar Önnu kom einnig fram að uppi eru  álitamál  um skattlagningu rafmynta og túlkun á ákvæðum laga um tekjuskatt og virðisaukaskatt eru ekki í takt. Þá væru reglugerðardrög á borði Evrópusambandsins um rafmyntir (Markets in Crypto-Assets) til að tryggja fjárfestavernd, auka eftirlit og herða aðgerðir gegn markaðssvikum.

Mjög líflegar pallborðsumræður mynduðust í lok fundar þar sem Dr.  Ásgeir Brynjar Torfason lýsti þeirri skoðun sinni að rafmyntir á borð við Bitcoin væru óstöðugar og gætu orðið verðlausar þar sem enginn aðili á borð við ríkisvaldið í gegnum Seðlabanka stæði á bak við hana. Þó gæti bálkakeðjutæknin sem stendur á bak við myntina nýtist mjög vel til að koma hefðbundnum gjaldmiðlum í rafrænt form og miðla greiðslum í framtíðinni. Þeir Gísli Kristjánsson og Daði Kristjánsson bentu á að rafmyntir og bálkakeðjutæknin væri í grunnin mjög gegnsæ og öflug tækni sem myndi með tímanum leysa af hólmi hefðbundnar greiðslumiðlunarleiðir. Voru þátttakendur í pallborðinu öll sammála um að umræðan um rafmyntir væri mjög nauðsynleg  til að leiða saman ólík sjónarmið og auka þekkingu á rafmyntum og að áhugavert yrði að fylgjast með þróun rafmynta á næstu misserum. 

KPMG vill þakka öllum þeim sem mættu á fundinn fyrir komuna. 

Myndir frá fundinum

Gestir í sal
Sigurvin B. Sigurjónsson, KPMG
Gísli Kristjánsson, Monerium
Sigríður Soffia Sigurðardóttir fundarstjóri
Björg Anna Kristinsdóttir, KPMG
Daði Kristjánsson, Viska Digital Assets
Pallborðsumræður