Félagsþjónusta er annar stærsti útgjaldaliður sveitarfélaga á Íslandi á eftir fræðslumálum. Það er í málaflokk félagsþjónustu sem okkar viðkvæmasti hópur sækir stuðning og þjónustu. Grunnstoðir velferðarkerfisins eru byggðar á fagfólki sem þar starfar. Starfsfólki sem sinnir gríðarlega krefjandi störfum sem oft á tíðum fyrir okkur hin eru ósýnileg.
Hvernig förum við að því að ná fram skilvirkni í umhverfi sem nú þegar er undir gríðarlegu álagi? Verða hugtök eins og skilvirkni, hagkvæmni í rekstri og minni sóun ótengd raunveruleikanum þegar þau sem á gólfinu standa upplifa nú þegar að kerfið sé þanið til hins ýtrasta? Hvernig aukum við gæði, tryggjum betra vinnuumhverfi á sama tíma og við náum utan um fjárhagslegan þátt þeirra málaflokka sem heyra undir?
Þróun hlutlægra mælikvarða innan velferðarmála hefur ekki fylgt þeirri þróun sem orðið hefur innan annarra fagumhverfa. Kennarar hafa til að mynda hámarksákvæði í sínum kjarasamningum um þá nemendur sem þeir sinna hverju sinni. Innan málaflokka félagsþjónustu eru engin takmörk fyrir því hversu mörg mál heyra undir hvern málastjóra. Velferðarþjónustu skortir hlutlæga mælikvarða sem með kerfisbundnum hætti meta verkefnaálag, málafjölda og tímalengd þeirra mála sem unnin eru hverju sinni. Kjarasamningar þurfa að miða að því að verkefnaálag sé sanngjarnt þannig að flótti skapist ekki úr þeim fagstéttum sem vinna að því að sinna þeim sem minna mega sín í okkar samfélagi.
Á sama tíma og allt þetta er gríðarlega mikilvægt er ákall frá sveitarfélögum að þau hafi yfir að ráða aðferð til þess að áætla hvernig best sé að dreifa því fjármagni sem úthlutað er til þeirra málaflokka sem undir félagsþjónustu tilheyra. Oft og tíðum eru málaflokkar félagsþjónustu ógegnsæir þeim sem bera ábyrgð á fjárhagsramma sveitarfélaganna og með auknu gegnsæi og hlutlægari mælikvörðum skapast betra innsæi og aukinn skilningur sem leiðir til sjálfbærari rekstrar. Á því er enginn vafi.
Málavog
Tilraunir hafa verið gerðar til þess að gefa út mælanleg viðmið innan Barnaverndarkerfisins með tilkomu málavogar sem fyrst var gefin út árið 2016. Málavogin í barnavernd er byggð á sænskri fyrirmynd og aðlöguð að íslenskum aðstæðum. Málavogin er byggð á huglægu mati starfsmanna innan barnaverndarkerfisins ásamt því að málum eru gefin stig eftir þyngd og umfangi. Úttekt á Málavog í barnavernd var framkvæmd árið 2022 af þeim Halldóri S. Guðmundssyni og Kjartani Ólafssyni fyrir Barna- og fjölskyldustofu og var liður í framkvæmdaáætlun barnaverndar 2019-2022, þar sem áhersla var á að meta með kerfisbundnum hætti vinnuálag og málafjölda starfsfólks innan barnaverndarkerfisins. Helstu niðurstöður þeirrar úttektar voru m.a.
- Skýrar óskir eru um að málavogin verði þróuð sem rafrænt verkfæri með rauntímaupplýsingum.
- Aðgerðir þurfi að fylgja í kjölfar mælinga. Viðvarandi eða endurtekin mæling sem sýnir álag umfram æskilega stöðu þarf að leiða fram aðgerð eða íhlutun eftirlitsaðila.
- Málavogin sé byggð upp sem hluti af málaskráningarkerfi barnaverndar.
- Málavogin verði gagnvirkt stýritæki fyrir stjórnendur.
Vinna við þróun málavogar í félagsþjónustu hefur verið í gangi síðustu ár og þá að fyrirmynd málavogar í barnavernd. Félagsráðgjafafélag Íslands hefur unnið að innleiðingu með tilraunasveitafélögum síðastliðin ár. Hægt hefur þokast í þeirri þróun og mælitækið ekki verið innleitt á landsvísu.
Það eru leiðir til að jafna dreifingu fjármagns
Við þróun mælitækja til þess að skoða deilingu fjármagns eða mönnunarþörf er hægt að styðjast við ólíkar breytur. Breytur sem ná utan um lýðfræðilega þætti og raunálag, og vegna stefnumarkandi áherslna þess sveitarfélags eða stofnunar sem um ræðir í hvert skipti. Lýðfræðilegar breytur hafa töluverð áhrif inn í umhverfi hvers tíma þar sem félagslegt landslag getur verið breytilegt, bæði á milli hverfa innan sama sveitarfélags og sveitarfélaga á milli.
Til að tryggja gott vinnuumhverfi, draga úr flótta fagfólks úr stéttinni og á sama tíma að tryggja jafna dreifingu fjármagns sem og að auka gagnsæi og skilvirkni, þarf velferðarkerfið í heild sinni að taka höndum saman og byggja upp heildstæða nálgun. Stafræn og gagnvirk mælitæki sem meta dreifingu fjármagns með tilliti til stöðugilda og þjónustu þar sem bæði er tekið tillit til innri og ytri breyta er verkfæri sem gæti stutt við þróun íslenska velferðarkerfisins til framtíðar. Vinna við málavog barnaverndar og þau mælitæki sem KPMG hefur tekið þátt í að þróa sýnir svo ekki sé um villst að hægt er að setja upp stafræn og gagnvirk mælitæki sem mæla álag á starfsfólk og auðveldar stjórnendum að áætla nauðsynlegan starfsmannafjölda í velferðarþjónustu.