Tekjur af ráðstefnu- og hvataferðagestum (MICE) eru allt að 2,7 hærri en tekjur af hinum hefðbundna ferðamanni eins og fram kom í greiningu okkar á MICE ferðaþjónustu fyrir Íslandsstofu.
Greiningin staðfestir verðmæti þessa hóps en ferðamenn tengdir ráðstefnu- og hvataferðum eru ekki eingöngu eftirsóknarverðir vegna þess að þeir skapi meiri tekjur en hefðbundnir ferðamenn, heldur þjóni þeir einnig þeim tilgangi að lina árstíðasveifluna sem lengi hefur verið áskorun íslenskrar ferðaþjónustu.
Ísland býr yfir mörgum styrkleikum sem ráðstefnu- og hvataferða áfangastaður en slíkar ferðir kalla líka á sterka innviði sem hafa reynst áskorun fyrir íslenska ferðaþjónustu.
Niðurstöður
Ljóst er að MICE ferðamenn skila meiri tekjum til landsins heldur en hefðbundnir ferðamenn. Neyslumynstur þessara MICE ferðalanga hefur skapað 15 milljörðum hærri tekjur en af sambærilegum fjölda hefðbundinna ferðamanna.
Þegar horft er fram á veginn sjást ýmis tækifæri til stefnumörkunar. Sameiginleg stefnumörkun leggur grunn að árangursríku samstarfi greinarinnar, stjórnvalda og annarra hagaðila m.t.t. uppbyggingar innviða og kynningarstarfs.