Haraldur Örn Reynisson

Haraldur Örn Reynisson

Mikið er rætt um sjálfbærni og þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir í þeim efnum. Sveitarfélög eru mikilvægur hlekkur í allri umræðu um sjálfbærni enda eru þau sá aðili sem hefur hvað mest áhrif á daglegt líf íbúa. Sjálfbærni sveitarfélaga hefur hins vegar mun víðtækari skírskotun heldur en einvörðungu til umhverfislegra þátta.  Fjárhagslegur styrkur sveitarfélags eykur t.a.m. líkur á að það nái markmiðum sínum á öðrum sviðum.

Eitt af haustverkefnum sveitarfélaga er vinna við gerð fjárhagsáætlunar komandi árs og næstu þriggja ára þar á eftir. Grunnur að þeirri vinnu er gjarnan útkomuspá ársins 2023 en hún gefur vísbendingar um hvort að ætla megi að sveitarfélagið nái fjárhagslegum markmiðum sínum í samræmi við fjárhagsáætlun ársins. Segja má að Samband íslenskra sveitarfélaga slái upptaktinn árlega í þessari vinnu með því að standa fyrir

Fjármálaráðstefnu sveitarfélaga. Í ár, líkt og áður, eru á dagskránni áhugaverð erindi sem tengjast rekstri sveitarfélaga  og helstu áskorunum þeirra.

Vænta má þess að útkomuspár sveitarfélaga verði undir verulegum áhrifum af þróun vaxta og verðlags í landinu og að við vinnu fjárhagsáætlana þurfi í einhverjum tilvikum að huga að aðgerðum til að tryggja fjárhagslega sjálfbærni. Skyldur sveitarstjórnar eru skýrar í þessum efnum líkt og fram kemur í 64. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 en þar er fjallað um viðmið um afkomu og fjárhagstöðu. Þar segir: „Sveitarstjórn ber að sjá til þess að rekstri, fjárfestingum og ráðstöfun eigna og sjóða sé þannig hagað á hverjum tíma að sveitarfélagið muni til framtíðar geta sinnt skyldubundnum verkefnum sínum.“ Ákvæðið lætur ef til vill ekki mikið yfir sér en nær þó að fanga þá frumskyldu sem hvílir á sveitarstjórnarfólki en það er að tryggja að fjárhag sveitarfélags sé hagað með þeim hætti að það geti um ókomna tíð sinnt lögbundnum skyldum sínum og síðast en ekki síst skapað núverandi og væntanlegum íbúum ákjósanlegan búsetukost. 

Áhrif fjárhagslegra mælikvarða á markmiðasetningu

Í tengslum við fjárhagsáætlunargerð þá njóta fjárhagslegir mælikvarðar, eðli málsins samkvæmt, mikils áhorfs og umræðu. Þeir mælikvarðar ná hins vegar ekki fyllilega utan um það hvernig sveitarfélögum gengur að ná markmiðum sínum í samræmi við samþykktar stefnur og markmið sem tengjast t.d. umhverfis-, skipulags- og fræðslu- og uppeldismálum. Við gerð fjárhagsáætlunar er mikilvægt að gera sér grein fyrir samspili fjárhagslegra þátta og áhrifa þeirra á getu sveitarfélags til að ná öðrum markmiðum sem sett hafa verið. Tökum sem dæmi loftslagsstefnu, en sveitarfélögum ber að setja sér loftslagsstefnu samkvæmt 5. gr. laga nr. 70/2012 um loftlagsmál með það að markmiði að draga úr losun gróðurhúsaloftegunda. Mögulega hafa þessi markmið fjárhagsleg áhrif í formi fjárfestinga eða aukins kostnaðar hjá viðkomandi sveitafélagi. Nefna mætti fjölmörg önnur dæmi um fjárhagsleg áhrif af markmiðum sem sveitarstjórnir hafa sett sér og huga þarf að við fjárhagsáætlunargerð.

Val einstaklinga um búsetu byggir meðal annars á gæðum þeirrar þjónustu sem veitt er og kostnaði við viðkomandi þjónustu en reikna má með því að val um búsetu byggi einnig á þáttum tengdum sjálfbærni sveitarfélaga í víðum skilningi. Vinnuafl framtíðarinnar mun auk þess í auknum mæli horfa til sjálfbærnistefnu aðila við val á vinnustað. Sveitarfélög eru stór vinnustaður og hafa því beina hagsmuni af því að laða til sín hæft starfsfólk. 

Sjálfbær sveitarfélög

Sjálfbært sveitarfélag

Líkt og áður hefur komið fram þá hefur sjálfbærni sveitarfélaga víðtækari skírskotun heldur en eingöngu til umhverfislegra þátta.  Sveitarstjórn í sjálfbæru sveitarfélagi verður einnig að horfa til þátta sem snúa að fólkinu, hagsæld og afkomu sveitarfélagsins með það að markmiði að tryggja sjálfbæran vöxt þess fyrir farsæla framtíð. KPMG hvetur sveitarfélög til að horfa í auknum mæli til sjálfbærni við framsetningu fjárhagsáætlana sem unnar verða á næstu vikum og mánuðum þar sem mælikvarðar á árangur ná betur til heildrænnar nálgunar á rekstur þeirra. Við hjá KPMG höfum víðtæka þekkingu á viðfangsefninu og erum reiðubúin að styðja sveitarfélög og sveitarstjórnir við að ná yfirsýn og miðla með skýrum hætti lykilmælikvörðum árangurs til stjórnenda, sveitarstjórnar og síðast en ekki síst íbúa.