Greinarhöfundur:

Freyja Sigurgeirsdóttir

Nánari upplýsingar veitir:

Þann 17. mars sl. birti innviðaráðuneytið í samráðsgátt stjórnvalda drög að stefnu í málefnum sveitarfélaga (hvítbók). Í drögunum eru dregin fram tvö markmið stefnu og aðgerðaráætlunar stjórnvalda í málefnum sveitarfélaga. Annað markmiðanna felur í sér að sjálfsstjórn og ábyrgð sveitarfélaga verði virt og tryggð verði sem jöfnust réttindi og aðgengi íbúa að þjónustu. Til að ná því markmiði er m.a. lagt upp með að samningar sveitarfélaga, sem fela í sér framsal á valdi til töku ákvarðana um rétt eða skyldu manna (stjórnvaldsákvarðanir), verði ekki fleiri en 50 á landsvísu í lok ársins 2038. Samhliða er áframhaldandi áhersla á sameiningar sveitarfélaga með það að markmiði að ekkert sveitarfélaga hafi færri en 1.000 íbúa.

Samstarf sveitarfélaga getur verið með ýmsum hætti og fer samningsform samstarfsins fyrst og fremst eftir þeim verkefnum sem samstarfið tekur til. Ef í samstarfssamningi sveitarfélaga felst framsal á valdi til töku stjórnvaldsákvarðana þá verður samstarfið að eiga sér stað í formi byggðasamlags eða á þann hátt að eitt sveitarfélag taki að sér verkefni fyrir annað eða önnur sveitarfélög. Síðarnefnda samstarfsformið er gjarnan kallað „leiðandi sveitarfélag“ til einföldunar.

Kostir og gallar samstarfssamninga

Árið 2018 hóf þáverandi samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið yfirferð á samstarfssamningum sveitarfélaga, á grundvelli eftirlitshlutverks ráðuneytisins. Í kjölfarið birti ráðuneytið leiðbeiningar um samvinnu sveitarfélaga en þar kom fram að margir samstarfssamningar sveitarfélaga eru ekki í samræmi við þær kröfur sem sveitarstjórnarlög gera til slíkra samninga.

Rúmlega 100 samstarfssamningar sem fela í sér framsal sveitarfélaga á valdi til töku stjórnvaldsákvarðana eru í gildi í dag m.a. um samstarf í velferðarþjónustu, brunavörnum og sorpmálum. Ýmsir kostir geta verið við gerð slíkra samninga, t.a.m. aukin fagþekking og þjónustuaukning sem fylgir gjarnan stærra þjónustusvæði. Einn helsti galli sem slíkir samningar hafa gjarnan í för með sér er aðgengi að upplýsingum um þá þjónustu sem heyrir undir samningana. Yfirferð ráðuneytisins leiddi auk þess í ljós að tilgreining verkefna og valdmarka er ábótavant þegar kemur að samstarfssamningum sveitarfélaga. Gríðarlega mikilvægt er að vandað sé til verka þegar kemur að valdmörkum svo ljóst sé hver ber ábyrgð á ákvarðanatökunni, t.a.m. í þeim tilvikum þegar íbúar sækja rétt sinn.

Aukin yfirsýn með stafrænum lausnum

Ráðuneytin hafa aukið eftirlit og kröfur til skýrleika framsals á valdi og útfærslum á samstarfi sveitarfélaga sem er í samræmi við auknar kröfur umboðsmanns Alþingis í málaflokknum. Hefur það leitt til nauðsynjar þess að endurskoða fyrirkomulag samstarfs sveitarfélaga. Lagabreytingar hafa einnig leitt til endurskoðunar á samstarfi en nýleg breyting á barnaverndarlögum er dæmi um slíkt. Góðir samstarfssamningar eru lykilatriði að góðu samstarfi sveitarfélaga og með aukinni nýtingu á stafrænum lausnum er hægt að auka yfirsýn og upplýsingaflæði. Má þar nefna notendavænt stjórnendamælaborð sem hægt er að aðgangsstýra með það fyrir augum að samstarfsaðilar hafi m.a. aðgang að upplýsingum um þjónustukostnað og aðrar lykiltölur í rekstri. KPMG hefur á síðustu misserum aðstoðað sveitarfélög við að leysa úr þeim vanköntum sem eru á samstarfssamningum þeirra með það m.a. að leiðarljósi að tryggja lögmæta og skilvirka þjónustu til íbúa og upplýsingaflæði til stjórnenda og kjörinna fulltrúa er bera ábyrgð á þjónustunni.