Engin ein leið til að innleiða sjálfbærni í fjárfestingarákvörðunina

Áreiðanleikakannanir eru hefðbundinn hluti af ákvörðunarferli fjárfesta hvort fjárfesta eigi í viðkomandi fyrirtæki.

Á undanförnum árum hefur ný tegund áreiðanleikakannana litið dagsins ljós. Áreiðanleikakönnun á umhverfis-, og félagslegum þáttum og stjórnarháttum (UFS, e. ESG) fyrirtækja er að verða sjálfsagður hluti af fjárfestingarákvörðuninni.

Áhugi fjárfesta á ESG hefur aukist á undanförnum árum og er ESG orðinn mikilvægur þáttur í virkri áhættustýringu. Til að mynda getur skuldastaða fyrirtækja versnað til muna ef lánveitendur hætta að veita fyrirtækjum fjármagn eða veita þeim verri lánakjör á grundvelli ESG.

Á sama tíma felast verðmæt tækifæri í að verða leiðandi fyrirtæki á sviði ESG. Aukinn fjöldi viðskiptavina horfir til þessara þátta og geta fyrirtæki sem standa sig vel aukið markaðshlutdeild sína og náð forskoti. Til að mynda hefur aukinn fjöldi fyrirtækja og stjórnvöld sett sér græna innkaupastefnu og hafa sett birgjum ákveðin skilyrði til að uppfylla.

Fjárfestar eiga í vandræðum með að ákveða bestu nálgunina þar sem skortur er á almennt viðurkenndu líkani fyrir ESG áreiðanleikakannanir. Fyrir suma fjárfesta nægir að fara í gegnum gátlista með forsvarsmönnum fyrirtækja á meðan það er grundvallaratriði fyrir aðra að fá djúpan skilning á ESG málefnum og mælikvörðum við mat á arðsemi fjárfestinga.

Það er mikil eftirspurn eftir almennt viðurkenndu líkani fyrir ESG áreiðanleikakannanir sem veitir fjárfestum möguleika á að miða þeirra nálgun við nálgun annarra á markaðinum. Hins vegar getur stöðluð nálgun leitt til óákjósanlegrar útkomu þar sem setja þarf nálgunina í samhengi við ESG stefnu og markmið fjárfesta.

Það eru fjórir megin þættir sem hafa þarf í huga þegar fjárfestar móta nálgun sína á ESG áreiðanleikakönnunum.

 

  • Í fyrsta lagi ætti að framkvæma mikilvægisgreiningu til að átta sig á helstu ESG málefnum fyrir markaðinn og þann atvinnugeira sem fjárfestingarkostur starfar í. Til að mynda eru umhverfismál hlutfallslega mikilvægari fyrir orkufyrirtæki en sprotafyrirtæki í heilbrigðisþjónustu. Nálgunin þarf að vera nægjanlega sveigjanleg til að greina á milli mismunandi tegundir fyrirtækja. Á sama tíma þarf nálgunin að vera nægilega stöðluð svo að ekki sé hægt að aðlaga hana til að markvisst auka eða minnka líkur á að viðskiptum verði rift.
  • Í öðru lagi ætti að huga að því hvernig ESG þættir hafa áhrif á fjárfestingarákvörðunina. Fjárfestar nálgast þetta á mismunandi hátt. Sumir ákveða að útiloka ákveðna atvinnugeira úr eignasafni sínu. Aðrir skoða hvert mál fyrir sig þar sem ákveðnir ESG þættir geta ráðið útkomunni svo sem mengunarslys og neikvæð áhrif á nærsamfélagið. Þá er skilgreint í stefnu fjárfesta að fjárfesta ekki ef mál af þessu tagi hafa komið upp. Enn aðrir greina ekki samkvæmt þessari "já/nei" aðferð, heldur skoða hvert fyrirtæki fyrir sig og ákvörðun er tekin í samhengi fyrirtækisins. Þá er horft á ESG veikleika eða áhættu sem tækifæri til að betrumbæta og þar með skapa verðmæti. Þannig gæti ESG prófíll fjárfesta lækkað til skamms tíma en ef vel tekst til við að vinna í veikleikum getur þessi nálgun styrkt ESG prófílinn til muna. Lykilspurning í þessu samhengi getur til dæmis verið hvort eigi að útiloka mengandi starfsemi úr eignasafninu eða hvort eigi að aðstoða fyrirtækin við að draga úr mengun.
  • Í þriðja lagi ætti að huga að hvaðan hvati til þess að ráðast í ESG áreiðanleikakönnun kemur. Er meginhvatinn að lánveitendur, viðskiptavinir og aðrir hagaðilar krefjast þess? Eða er hvatinn fólginn í tækifærinu í að gera djarfar umbætur og verða leiðandi í ESG málum og ná forskoti á markaði? Líklegt er að þau sem kjósa fyrri nálgunina ráðist í ESG áreiðanleikakannanir með minni metnaði á meðan þau sem kjósa seinni nálgunina séu knúin áfram af sannfæringu um að ESG þættir geti leitt til aukins fjárhagslegs ávinnings og byggt upp meiri arfleið.
  • Í fjórða og síðasta lagi ætti að horfa til þróunar á ESG og að framkvæma heildræna greiningu. Undanfarin ár hefur áhersla verið á loftlagsmál og í auknu mæli á samfélagsmál á borð við Me-Too og Black Lives Matter byltinguna en ESG umræðan er stöðugt að þróast. Til að mynda er nú sífellt mikilvægara að horfa til tækifæra í hringrásarhagkerfinu og þeim áhættum sem felast í hnignun líffræðilegs fjölbreytileika jarðarinnar. Á sama tíma er mikilvægt að huga að félagslegum þáttum og stjórnarháttum þar sem hætta felst í því að einblína einungis á einn þátt en hunsa hina auk þess sem passa þarf upp á að aðgerð í umhverfismálum hafi ekki skaðleg áhrif á samfélagið og öfugt. Því þarf hver nálgun að vera nægjanlega sveigjanleg til að geta þróast í takt við ESG á heildrænan hátt.

Markaðurinn er enn langt frá því að skilgreina viðurkennda nálgun á ESG áreiðanleikakönnun. Fjárfestar þurfa því að skilgreina sína eigin nálgun sem byggir á ofangreindum þáttum. Búast má við því að munur verði á þeim nálgunum sem fjárfesta kjósa, þar sem einhliða nálgun hentar líklega fáum.

Sú þróun að horfa til ESG þátta í áreiðanleikakönnun er jákvæð. Markaðurinn fyrir slíkum greiningum hefur vaxið ört sérstaklega í Evrópu. Þeim hefur einnig farið fjölgandi á Íslandi undanfarin ár en það er álit höfundar að Ísland geti gert enn betur og orðið leiðandi í að innleiða ESG í fjárfestingarákvörðunum.

Grein eftir Önnu-Bryndísi Zingsheim Rúnudóttur