Í dag eru flestir ef ekki allir samningar um kaup og sölu fyrirtækja gerðir með fyrirvara um framkvæmd áreiðanleikakönnunar. Með áreiðanleikakönnun eykur fjárfestir skilning sinn á rekstri félags, fjárhagsstöðu þess og helstu áhættuþáttum í rekstrinum. Í raun eru áreiðanleikakannanir tæki til að samræma vitneskju og upplýsingar kaupanda og seljanda á félagi svo báðir aðilar sitji við sama borð þegar kemur að samningaviðræðum.

Markmið með framkvæmd áreiðanleikakannana er að kanna og draga fram þau atriði í rekstri og fjárhag fyrirtækis sem geta skipt hagsmunaaðila máli. Hagmunaðilar eru t.a.m. kaupendur félags, seljendur félags, lánveitendur, stjórnarmenn og stjórnendur, en tilgangur með áreiðanleikakönnunum er fyrst og fremst að aðstoða þessa hagsmunaðila við að taka upplýstar ákvarðanir. 

Áreiðanleikakannanir KPMG eru byggðar á alþjóðlegri aðferðafræði KPMG um framkvæmd á áreiðanleikakönnunum en löguð að þörfum og áherslum hvers verkefnis. Áreiðanleikakannanir eru unnar af óháðum og hlutlausum aðilum með viðeigandi sérfræðiþekkingu og eru byggðar á framlögðum gögnum stjórnenda, opinberum upplýsingum, viðtölum við stjórnendur og aðra starfsmenn. 

Algengast er að kaupendur láti framkvæma fyrir sig áreiðanleikakönnun en færst hefur í aukana að seljendur láti framkvæma fyrir sig áreiðanleikakönnun og er það þá gert áður en að söluferli hefst (e. Vendor due diligence).  Slík könnun veitir kaupendum meira traust við tilboðsgerð þar sem komið er óháð álit þriðja aðila sem nýtist við frekari ákvarðanatökur. Einnig hefur færst í aukana að fyrirtæki eru aðstoðuð við undirbúning söluferli (e. Vendor assistance) sem felur í sér að aðstoðað er við að safna saman og stilla upp gögnum til notkunar í áreiðanleikakönnunum, hvort sem um er að ræða kaupenda- eða seljendaáreiðanleikakönnun.

Niðurstöður vinnu KPMG eru lagðar fram í skýrslu þar sem m.a. helstu áhættuþættir í rekstri fyrirtækis eru dregnir fram. Einnig er í vinnu okkar afhent vinnuskjöl hvort sem um er að ræða í excel eða með öðru formi til að einfalda móttakanda greiningar sínar og vinnu.  Umfang áreiðanleikakannana geta verið mismunandi eftir verkefnum og óskum verkkaupa.

KPMG, í samvinnu við KPMG Law, býður upp á framkvæmd alhliða áreiðanleikakannana á sviði fjárhags og skatta auk lögfræðilegra og tæknilegra áreiðanleikakannana. Einnig er boðið upp á áreiðanleikakönnun á sviði sjálfbærni þar sem horft er til UFS þátta í rekstri fyrirtækja og stöðu gagnvart lögbundinni upplýsingagjöf á því sviði.

Fjárhagsleg áreiðanleikakönnun

Í fjárhagslegri áreiðanleikakönnun er rekstur félagsins skoðaður m.a. í sögulegu samhengi. Þá er til að mynda gerð greining á uppruna tekna, sveiflum í rekstri og helstu viðskiptasamböndum. Algengt er að gerð sé greining á forsendum áætlunar félags, mögulegri fjárfestingaþörf  ásamt frávikagreiningu fyrri áætlana. Unnin er ítarleg greining á eignum og skuldbindingum félags. Dregnar eru sérstaklega fram eignir sem eru ekki rekstrartengdar. Megintilgangur vinnunnar er að draga fram hver er raunveruleg EBITDA félagsins, hver er veltufjárbinding félagsins með greiningum á hreinum veltufjármunum, skuldastaða og stöðu fjárfestinga hjá félaginu með því leiðarljósi að styðja við verðmat á félaginu og möguleg áhrif þessara mál á kaupverðsútreikninga. 

Lögfræðileg áreiðanleikakönnun

Við framkvæmd lögfræðilegrar áreiðanleikakönnunar er farið yfir gögn um fyrirtækið, s.s. samþykktir félags, fundargerðir stjórna, fundargerðir hluthafafunda, skipurit og samninga við hluthafa. Einnig er farið yfir fjölþættar samningsskuldbindingar félags, s.s. varðandi sölumál, birgðir, kaup og sölu eigna og vörumerki. Aðrir þættir sem eru skoðaðir varða m.a. tryggingamál, hugverkaréttindi, málaferli, umhverfismál, fjármögnunargögn, starfsleyfi, fasteignir og aðrar eignir. 

Skattaleg áreiðanleikakönnun

Við framkvæmd skattalegrar áreiðanleikakönnunar eru m.a. kannaðar tekjuskattskuldbindingar, kvaðir tengdar virðisaukaskatti, skattaleg málefni tengd samruna og skiptingum félaga og skil á skýrslum til viðkomandi skattyfirvalda. Áhersla er lögð á að skoða hvernig er meðhöndlun og stjórnun skattamála hjá fyrirtækinu og reynt að meta hvort skipulag skattamála og skattastjórnun sé með fullnægjandi hætti. 

Tæknileg áreiðanleikakönnun

Í tæknilegri áreiðanleikakönnun er farið yfir stöðu upplýsingatæknimála hjá fyrirtækjum. Umfang tæknilegra áreiðanleikakannana getur verið mismunandi. Algengt er að samhliða fjárhagslegri áreiðanleikakönnun sé farið yfir heildstætt yfir hvaða upplýsingakerfi eru í notkun, skoðuð staða leyfismála og möguleg fjárfestingarþörf. Einnig er þá skoðað hvaða atriði þarf að hafa í huga þegar fjárfest hefur verið í félagi og hvaða atriði þarf að hafa í huga við samþættingu ásamt því að skoðað er hvort staða tæknimála getur haft áhrif á verðmat félagsins. Umfangsmeiri áreiðanleikakannanir eru sérsniðnar að hverju fyrirtæki fyrir sig og þeim áhersluatriðum sem væntanlegir kaupendur vilja leggja áherslu á. 

UFS áreiðanleikakönnun

Færst hefur í aukana að framkvæmd er áreiðanleikakönnun þar sem framkvæmd er skoðun á umhverfis og félagslegum þáttum og stjórnarháttum (UFS). UFS áreiðanleikakannanir geta verið unnar á mismunandi vegu eftir þörfum viðskiptavinarins og UFS fjárfestingarstefnu hans. Yfirleitt er fyrst framkvæmd mikilvægisgreining (e. double materiality). Með henni eru helstu sjálfbærniáhættur félags skilgreindar út frá sjálfbærniþáttum sem hafa mest áhrif á félagið og stærstu áhrifum félagsins á sjálfbærniþætti. Þá er meðal annars skoðað hvort félagið eigi til staðar viðkomandi stefnur fyrir hvern mikilvægisþátt og hvort verið sé að mæla lykilmælikvarða. Einnig er farið yfir hvernig sjálfbærnimálum er háttað innan félags m.t.t. stjórnunar, eftirlits, upplýsingagjafar, áhættugreiningu, stefnu og aðgerðaráætlunum. Með breytingum á regluverki tengdu upplýsingagjöf á sviði sjálfbærni er lagt mat á stöðu félagsins út frá þeim skuldbindingum sem þar koma fram, m.a. varðandi ófjárhagslega upplýsingagjöf í ársreikningum.