Ágúst Karl

Ég er spenntur fyrir þessu nýja hlutverki og þakklátur fyrir traustið sem mér er sýnt. Ég hlakka til að koma að áframhaldandi uppbyggingu stofunnar, en ég tek við góðu búi af forvera mínum, henni Soffíu Eydísi, sem hefur leitt uppbyggingarstarf stofunnar frá stofnun hennar árið 2017. KPMG Law hefur vaxið umtalsvert síðustu ár og starfa nú á fjórða tug lögmanna, lögfræðinga og annarra sérfræðinga hjá félaginu. Segir Ágúst Karl nýr framkvæmdastjóri KPMG Law ehf.

Ágúst Karl Guðmundsson, lögmaður og einn eiganda KPMG Law ehf., tók nýverið við sem framkvæmdastjóri félagsins og mun sinna því samhliða ráðgjafastörfum á stofunni.

Ágúst Karl tekur við af Soffíu Eydísi Björgvinsdóttur, lögmanni, sem hefur gengt starfinu síðastliðin sex ár en mun nú aðallega einbeita sér að ráðgjöf á sviðum sjálfbærni í samstarfi við aðra sjálfbærniráðgjafa KPMG.

Ágúst Karl er lögmaður með framhaldsgráðu í alþjóðlegum skattarétti (e. Adv. LL.M.) frá ITC, Háskólanum í Leiden, Hollandi. Hann hefur starfað hjá KPMG ehf. frá árinu 2006 og varð hluthafi þar 2014. Ágúst Karl sat í stjórn KPMG ehf. á árunum 2017-2022 og var einn af stofnendum KPMG Law árið 2017. Ágúst Karl er einn reynslumesti ráðgjafi landsins þegar kemur að álitamálum tengdum alþjóðaviðskiptum.

"Ég er spenntur fyrir þessu nýja hlutverki og þakklátur fyrir traustið sem mér er sýnt. Ég hlakka til að koma að áframhaldandi uppbyggingu stofunnar, en ég tek við góðu búi af forvera mínum, henni Soffíu Eydísi, sem hefur leitt uppbyggingarstarf stofunnar frá stofnun hennar árið 2017. KPMG Law hefur vaxið umtalsvert síðustu ár og starfa nú á fjórða tug lögmanna, lögfræðinga og annarra sérfræðinga hjá félaginu,“ segir Ágúst Karl.

Aðspurður út í starfsemina svarar Ágúst Karl: „Við erum sérhæfð lögmannsstofa í alþjóðlegu samstarfi KPMG, sem leggur áherslu á að vera augljóst val viðskiptavina. Við störfum náið með öðrum sérfræðingum KPMG, sem gerir okkur kleift að veita þjónustu á breiðum grunni, hvort sem er á sviðum lögfræði, skatta, fjármála eða rekstrar. Við finnum sterkt þá eftirspurn viðskiptavina okkar og markaðarins um að á baki lögfræðiráðgjafar sé breiðari sérfræðiþekking umfram lögin sjálf.“ segir Ágúst Karl.

Soffía Eydís mun áfram sinna lögmennsku hjá lögmannsstofunni og mun sem fyrr segir leggja áherslu á ráðgjöf á sviðum sjálfbærni. Hún mun tilheyra sjálfbærniteymi KPMG sem veitir heildstæða þjónustu á sviði sjálfbærni og sjálfbærra fjármála. Sjálfbærniteymi KPMG er reynslumikið og hefur komið að mörgum áberandi verkefnum á sviði sjálfbærni á Íslandi sl. ár. Soffía Eydís mun sérstaklega einbeita sér að ráðgjöf í tengslum við sjálfbærni er snýr að skatta- og lagalegri áhættu og áreiðanleikakönnunum.

„Það hefur verið skemmtilegt, gefandi og lærdómsríkt að gegna starfi framkvæmdastjóra KPMG Law frá stofnun stofunnar. Stofan byggir á grunni skatta- og lögfræðisviðs KPMG, sem á rætur að rekja langt aftur, en hefur frá 2017 verið rekin í sér félagi. Það er einnig afar ánægjulegt að fá tækifæri til að sinna aftur alfarið ráðgjöf og lögmannsstörfum á þessum frábæra vinnustað og innan veggja stærsta ráðgjafarfyrirtækis landsins. Sjálfbærni mál eru mér hugleikin, en eftirspurn eftir okkar reynslu og þekkingu á þeim málum hefur vaxið ört á undanförnu og verður gott að geta sinnt því heilshugar á komandi misserum”, segir Soffía Eydís.