KPMG kynnti niðurstöðu samantektar um þau efnahagslegu áhrif sem samfélagið á Vestfjörðum hefur á tekjur ríkissjóðs á fundi Innviðafélags Vestfjarða á Patreksfirði þann 26. nóvember undir yfirskriftinni „Vestfirska efnahagsævintýrið“ eða það sem hefur verið kallað Samfélagsspor. Niðurstöður KPMG benda til þess að framlag Vestfjarða til íslensks samfélags og opinberrar samneyslu er töluvert og vel umfram það sem landsvæðið þiggur frá hinu opinbera.

Á fundinum kom fram að samfélagsspor Vestfjarða undanfarin ár nemi um 25,5 milljarða króna og fyrirsjáanlegt að það muni aukast á næstu árum.  Efnahagsumsvif fjórðungsins hafa verið að aukast töluvert og þau verðmæti sem eru að skapast á hvern íbúa að sama skapi. Miðað við höfðatölu eru Vestfirðingar sífellt að skapa meiri verðmæti á sama tíma og framlag hins opinbera, m.a. til innviðauppbyggingar, virðist ekki vaxa að sama skapi.

Saga Vestfjarða er sögð hér með aðeins öðrum hætti en stundum vill verða þegar rætt er um þetta landsvæði út frá fjárhagslegum sjónarmiðum. Samantekt KPMG sýnir verðmætasköpun og jákvæð áhrif á ríkisreikninginn. 

Skattaspor og samfélagsspor

KPMG hefur reiknað bæði Skattaspor fyrir fyrirtæki og Samfélagsspor fyrir sveitarfélög eða landsvæði. Munurinn á Skattaspori og Samfélagsspori felst í sjónarhorninu og aðferðarfræðinni en í grunninn eru þau unnin á svipaðan hátt. Þau byggja á rauntölum úr bókhaldi fyrirtækjanna sem um ræðir (Skattaspor) eða bókhaldi hins opinbera, s.s. Skattinum, Hagstofunni, Fiskistofu o.s.frv. (Samfélagsspor)

Skattaspor

Skattaspor fyrirtækja vísar til þeirra skatta og gjalda sem myndast vegna þeirrar verðmætasköpunar sem rekstur félags skilar. Þetta eru allar greiðslur sem viðkomandi fyrirtæki greiðir til ríkis, sveitarfélaga og lífeyrissjóða auk þeirra skatta sem eru innheimtir fyrir hönd yfirvalda og skilað til þeirra. 

Samfélagsspor

Samfélagsspor vísar til þeirrar fjárhæðar greiddra skatta og opinberra gjalda sem einstaklingar og lögaðilar með lögheimili í sveitarfélaginu standa skil á til ríkissjóðs, að frádregnum þeim fjárhæðum sem koma til baka auk kostnaðar við rekstur á sameiginlegri (opinberri) þjónustu til íbúa viðkomandi sveitarfélags. 

Samfélagsspor Vestfjarða

Það var hið síðarnefnda sem KPMG reiknaði fyrir allan landsfjórðunginn sem samanstendur af 8 sveitarfélögum. Aflað var gagna frá Skattinum og öðrum opinberum aðilum og byggt fyrst og fremst á rauntölum um greidda skatta og gjöld, bæði fyrirtækja og einstaklinga á svæðinu, allt frá árinu 2019. Reynt var að draga fram upplýsingar úr fjárlögum og úthlutunum úr Jöfnunarsjóði en við þurftum að undanskilja þær upplýsingar sem ekki voru sérgreinanlegar niður á landsvæði.

Til viðbótar við þær stofnanir sem eru með starfsemi á Vestfjörðum (og við tókum mið af) er fjöldi starfsmanna á vegum hinna ýmissa ráðuneyta sem starfa á svæðinu. Upplýsingar um kostað vegna þeirra eru ekki haldbærar en í ársbyrjun 2023 var um að ræða 67 stöðugildi.

Til viðbótar við þau opinberu gjöld sem fjallað er um í samantektinni um samfélagsspor greiddu einstaklingar, lögaðilar og stofnanir virðisaukaskatt af þeim vörum og þjónustu sem keypt var á árinu. Kaupin voru bæði af aðilum innan landssvæðisins sem og frá aðilum utan þess. Hluti þess virðisaukaskatts fékkst endurgreiddur í samræmi við ákvæði laga. Engar upplýsingar liggja fyrir um það hver áhrif vegna virðisaukaskatts eru á samfélagsspor Vestfjarða. En það má giska á að bæði neysla íbúanna og ferðamannanna – sem hefur fjölgað mikið t.d. með komu skemmtiferðaskipanna – hafi töluverð áhrif þótt þau hafi ekki verið tekin með hér.

Einnig greiða íbúarnir útsvar og fasteignagjöld til síns sveitarfélags sem er ekki tekið með hér. Ástæðan fyrir því að þessar greiðslur eru ekki taldar með í útreikningi samfélagsspors er að reiknað er framlag Vestfirðinga í sameiginlega þjónustu við alla íbúa landsins, og undanskiljum því þessar greiðslur til sveitarfélaganna.