Niðurstöður greiningar KPMG sýnir að það er hagur sveitarfélaga að stuðla að bættu heilbrigði eldra fólks og þar með lengja búsetu þeirra í samfélaginu. Á meðal þess sem fram kemur í nýrri skýrslu KPMG er að 21,2 % eldra fólks nýtti félagslega þjónustu sveitarfélaga árið 2017.
Greiningin gerir stjórnvöldum kleift að bera saman kostnað ýmissa aðgerða á móti ábata og vænts árangurs aðgerða í þeim tilgangi að auðvelda ákvarðanatöku. Greiningin er leiðarvísir um hvað telst viðunandi kostnaður aðgerða fyrir bæði ríki og sveitarfélög.
Mælaborð KPMG skapar nýja sýn á fjárhagsgögn hins opinbera og samkeyrir þau við lýðfræðileg gögn. Horft er til fortíðar og reynt að varpa ljósi á framtíðina út frá forsendum sem taldar eru skynsamlegar. Markmiðið er að það nýtist til ákvarðanatöku með ábata í huga sem stuðlað getur að velferð samfélagsins.
Aðgerðarmat hefur verið sett fram sem sýnir hvaða sveitarfélög þurfa að ráðast í aðgerðir til að bæta þjónustu við eldra fólk. Hvert sveitarfélag fær aðgerðarstuðul sem tekur tillit til skatttekna á hvern íbúa og hlutfall eldra fólks af heildaríbúafjölda á svæðinu.
Helstu niðurstöður greiningar KPMG
Samfélagslegur ábati sveitarfélaga að bæta þjónustu við eldra fólk
Niðurstöður sýna að útsvarstekjur sveitarfélaga frá eldra fólki 67+ á móti útgjöldum eru hærri en þeirra sem yngri eru. Eldra fólk er því að gefa meira til samfélagsins í formi útsvarstekna á meðan yngra fólkið er að skapa meiri útgjöld en tekjur til sveitarfélaga. Í greiningunni fær aldurshópurinn 67+ ábatastuðulinn 1,3 og yngra fólk stuðulinn 0,7. Miðað við þróun og spár má gera ráð fyrir að ábatastuðull eldra fólks komi til með að hækka en lækka lítillega hjá yngra fólki.
Ábatagreining sveitarfélaga
Ef bæði ríki og sveitarfélög bæta þjónustu og stuðla þar með að heilbrigðri öldrun má gera ráð fyrir að fleiri íbúar lifi lengur í sínu sveitarfélagi sem eykur samfélagslegan ábata. Kostnaðarábatagreining gerir sveitarfélögum kleift að meta áhrif útgjalda og bætta þjónustu við eldra fólk og meta þar með hvort fjárfestingin eigi eftir að skila sér í ábata til alls samfélagsins.
Vitundarvakning sveitarfélaga
Með aukinni vitundarvakningu um ábata og framlag eldra fólks til samfélagsins má búast við því að sveitarfélög muni í auknum mæli keppast við að laða þennan hóp til sín með bættri og samþættari þjónustu.