KPMG hefur keypt RR ráðgjöf, sem er sérhæft ráðgjafafyrirtæki í þjónustu við sveitarfélög. Við kaupin mun RR ráðgjöf sameinast KPMG og starfsfólk fyrirtækisins mun koma til starfa á ráðgjafarsviði KPMG. RR ráðgjöf var stofnað af Róberti Ragnarssyni sem hefur víðtæka reynslu af starfsemi sveitarfélaga og er meðal annars með yfir 10 ára reynslu sem bæjarstjóri í Sveitarfélaginu Vogum og í Grindavíkurbæ. Starfsfólk RR ráðgjafar hefur byggt upp verðmæta sérþekkingu á stjórnsýslu, rekstri og málefnum sveitarfélaga.

KPMG hefur um margra ára skeið verið framarlega í endurskoðun og margvíslegri ráðgjöf við sveitarfélög og styrkir  nú stöðu sína í þeim efnum enn frekar. Framundan eru viðamikil verkefni og breytingar á vettvangi sveitarfélaga. Kröfur um öfluga og skilvirka þjónustu kalla sífellt á aukna  hagkvæmni í rekstri, markvissa nýtingu fjármuna sem og stafræna þróun til þess að auka skilvirkni og bæta þjónustu við íbúa. Þá er mikið verkefni framundan við innleiðingu farsældarlaga og samþættingu þeirra við starfsemi sveitarfélaga. Sameinaður ráðgjafahópur RR ráðgjafar og KPMG hefur mjög mikla reynslu og þekkingu sem nýst getur sveitarfélögum í gegnum þær breytingar.

Markmið mitt hefur alltaf verið að sinna fjölbreyttum þörfum sveitarfélaga. Það hefur gengið vel og mínir viðskiptavinir verið ánægðir með persónulega þjónustu. Meðal þeirra spurninga sem sveitarstjórnarfólk þarf að svara á næstu árum er hvernig þau ætla að innleiða samþætta þjónustu til farsældar fyrir börn, efla stafræna þjónustu, veita stækkandi hópi frískra eldri borgara góða þjónustu og síðast en ekki síst hvernig á að takast á við fjármál og rekstur í kjölfar heimsfaraldursins. Mitt mat að verkefni næsta kjörtímabils verði þannig að nauðsynlegt sé að hafa aðgang að þverfaglegri þekkingu á sviði stjórnsýslu, velferðarþjónustu, fjármála og stafrænna lausna. Sú þekking er til hjá sameinuðum hópi ráðgjafa KPMG og RR ráðgjafar.

Róbert Ragnarsson, stofnandi RR ráðgjafar

Við erum afar stolt af því að hafa fengið starfsfólk RR Ráðgjafar til liðs við okkur. Þau hafa náð góðum árangri og njóta trausts og virðingar á vettvangi sveitarfélaganna. Saman munum við geta eflt þjónustu okkar við sveitarfélögin í landinu enn frekar með breiðari hópi öflugra ráðgjafa með sérþekkingu á því sviði.

Magnús Kristjánsson, meðeigandi hjá KPMG
og sérfræðingur í málefnum sveitarfélaga