Hér má lesa helstu punkta frá fundinum

Það var fullur salur á vindorkufundi KPMG og Orkuklasans sem haldinn var á Hilton Reykjavík Nordica miðvikudaginn 5. mars. Jóhann Páll Jóhannsson, ráðherra umhverfis-, loftslags- og orkumála ávarpaði fundinn og tók fram að beislun nýrra orkuleiða væri lykilatriði til að stuðla að bættu orkuöryggi og auknum sveigjanleika orkukerfisins.  

Jóhann Páll ræddi nauðsyn þess að skapa sátt um vindorku. „Við þurfum að leysa úr óvissu þegar kemur að greiðslu fasteignagjalda af orkumannvirkjum. Ég held að ef við náum ekki samstöðu um þetta þá komumst við ósköp lítið áfram og náum engri samfélagslegri sátt um vindorkukosti. Því tel ég einboðið að teikna verði upp skýra mynd af því hvernig ávinningur af vindorku, sem og öðrum orkukostum, skili sér með sanngjarnari hætti í nærsamfélagið,“ sagði ráðherra og tók fram að hann myndi leggja áherslu á aðkomu sveitarfélaga við ákvörðunarferli um uppbyggingu vindorkuvera sem muni byggjast á langtímasýn, á grundvelli skipulags.  

„Hér er úrlausna þörf og það kallar á samhæfða vinnu milli míns ráðuneytis og svo fjármála- og efnahagsráðuneytisins og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins,“ sagði Jóhann Páll og tók fram að rík samstaða um mikilvægi þessara mála ríkti innan ríkisstjórnarinnar: „Markmið okkar í orkumálum eru skýr. Við ætlum að ryðja burt hindrunum og liðka fyrir framkvæmdum. Við ætlum að auka orkuöflun, styrkja flutningskerfi og bæta orkunýtni þannig að stutt verði við raforkuöryggi, orkuskipti og verðmætasköpun um allt land.“ 

Jóhann Páll Jóhannsson, ráðhera umhverfis-, loftslags- og orkumála
Ráðherra
Sylvía Vilhjálmsdóttir

Ný aðferðafræði við framkvæmd fasteignamats 

Sylvía Vilhjálmsdóttir, verkefnastjóri hjá KPMG, fór í erindi sínu yfir aðferðarfræði, sem KPMG hefur þróað ásamt COWI og Gnaris fyrir Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, við framkvæmd fasteignamats á orkumannvirki og dreifingu skatttekna til nærsamfélaga með það að markmiði að sveitarfélög fá sanngjarna hlutdeild. „Við höfum nú lagt fram tillögu að aðferðafræði og tæknilegum lausnum sem hægt er að nýta til grundvallar útreikningum og skiptingu skatttekna á nærsamfélög,“ sagði Sylvía. „Hluti af því er hönnun sýnileikamódels, þar sem áhrifasvæði vindorkuvera eru metin út frá radíus umhverfis túrbínu, en þannig er hægt að reikna sanngjarna dreifingu skatttekna af virkjunum, fyrir þau sveitarfélög sem eru í nánd við þær”. 

Sjálfbært orkukerfi bæði umhverfisvænna og hagkvæmara 

Anna-Bryndís Zingsheim Rúnudóttir, verkefnastjóri hjá KPMG, fjallaði um bestunarlíkan til hönnunar á framtíðarorkukerfi Íslands til fullra orkuskipta árið 2050. Þar sýndi hún fram á að lausnir eins og orkugeymsla í formi rafgeyma og geymslutanka fyrir vetni og rafeldsneyti auk sveigjanlegrar eftirspurnar geta leitt til hagkvæmara og umhverfisvænna orkukerfis. Auk þess er hægt að nýta þessar lausnir í jöfnun á óstöðugleika vinds.   

„Samkvæmt grófum útreikningum má áætla að sparnaður við að byggja upp snjallt, grænt orkukerfi til framtíðar hlaupi á tugmilljörðum króna á ári hverju ef borinn saman við kostnað við innflutning á jarðefnaeldsneyti í dag. Og þá eru umhverfisáhrifin ótalin,“ sagði Anna-Bryndís. 

Anna-Bryndís Zingsheim Rúnudóttir
Bjarni

Bjarni Pálsson, framkvæmdastjóri vinds- og jarðvarma hjá Landsvirkjun ræddi um áform félagsins um vindorkugarðinn Vaðölduver sem er í undirbúningi og einnig um reynslu Landsvirkjunar af prófunum á rekstri vindmylla á Íslandi.

Þá lauk Hilmar Gunnlaugsson, fyrrverandi formður starfshóps um nýtingu vindorku erindum á því að fjalla um framtíðarsýn nýtingar vindorku á Íslandi. Erindið byggðist á niðurstöðum þessa starfshóps sem skilað var árið 2023 auk niðrstaðna starfshóps um skattlagningu orkuvinnslu sem skilað var í janúar 2024. 

Hilmar

Fundinum lauk svo með líflegum pallborðsumræðum þar sem þátttakendur voru þau Katrín Helga Hallgrímsdóttir, lögfræðingur  Samorku, Magnús G. Erlendsson meðeigandi hjá KPMG,  Jón G.  Valgeirsson, sveitarstjóri Rangárþings ytra og Þorsteinn Arnalds verkefnastjóri HMS.  Róbert Ragnarsson, meðeigandi hjá KPMG stýrði pallborðsumræðum. 

Fundarstjóri var Rósbjörg Jónsdóttir framkvæmdastjóri Orkuklasans. 

Við þökkum þátttakendum kærlega fyrir komuna! 

panell
Panell
Panell

Fleiri myndir frá fundinum

Hlynur Sigurðsson
Gestir fundarins
Gestir
Rósbjörg Jónsdóttir
Gestir
Gestir fundarins

Hér má sjá upptöku frá fundinum

informative image