Skattamál íþróttafélaga í brennidepli
Mikil ólga er innan íþróttafélaga með nýjar leiðbeiningar frá skattayfirvöldum sem gætu falið í sér aukinn kostnað fyrir félögin auk þess sem áréttað er að forsvarsmenn félaganna geti sætt refsiábyrgð sé brotið gegn skyldum um staðgreiðslu skatta og tryggingargjalda. Þetta var meðal þess sem kom fram á árlegum Skattafróðleik KPMG í morgun þar sem farið var yfir helstu breytingar og áherslur í skattamálum á komandi ári.
Fullt var úr dyrum á Hilton Reykjavík Nordica þar sem viðburðurinn fór fram en þar var einnig farið yfir ýmis mikilvæg atriði sem snúa að nýjum sköttum og gjöldum, breytingum á útreikningi skatta og skattafrádrætti. Þá var kafað í kynslóðaskipti hjá fyrirtækjum en stærsti hluti félaga á Íslandi er í eigu einstaklinga og einkaaðila. Við kynslóðaskipti vakna fjölmörg álitaefni og var farið yfir ýmsar áskoranir í tengslum við það og þá sérstaklega sem snúa að skattamálum.
Í erindunum kom meðal annars fram að:
Guðrún Björg Bragadóttir, verkefnastjóri hjá KPMG Law, fjallaði um skattalagabreytingar í erindi sínu:
„Um áramótin urðu nokkrar breytingar á sköttum sem nauðsynlegt er að hafa í huga fyrir rekstraraðila og einstaklinga. Það voru frekar fáar breytingar varðandi skattskil einstaklinga en þó ýmislegt sem þarf að huga að eins og hækkandi persónuafsláttur og fleira. Hjá rekstraraðilum er ýmislegt þarf að hafa í huga, til dæmis breytingar vegna gistnáttaskatts, nýsett innviðagjald vegna skemmtiferðaskipa og eins voru gerðar ýmsar breytingar sem tengjast skattafrádrætti rannsóknar- og þróunarstyrkja.“
Ásgeir Skorri Thoroddsen, partner hjá KPMG ehf., fjallaði um kynslóðaskipti í fyrirtækjum:
„Stærstur hluti félaga á Íslandi er í eigu einkaaðila, einstaklinga, og jafnvel fjölskyldna. Allt hefur sinn tíma og að endingu verða kynslóðaskipti í eigendahópi félaga óhjákvæmileg, hvort sem næsta kynslóð erfingja tekur við eða fyrirtækin eru seld. Við slíkar breytingar vakna fjölmörg álitaefni, meðal annars skattaleg. Í þeim dæmum sem ég fór yfir á fundinum má sjá að það getur verið talsverður munur á skattalegum áhrifum kynslóðaskipta, eftir því hvernig þau fara fram. Eins og í öðru getur góður undirbúningur og skipulagning auðveldað allt ferlið."
Kristinn Jónasson, partner hjá KPMG Law og lögmaður, fjallaði um uppfærðar leiðbeiningar frá skattyfirvöldum og áhrif þeirra á íþróttahreyfinguna:
„Í uppfærðum leiðbeiningum frá skattyfirvöldum er lögð áhersla á að íþróttamenn og þjálfarar sem fá greiðslur frá íþróttafélögum, séu skilgreindir sem launþegar fremur en verktakar, en þetta mun hafa nokkuð stór kostnaðaraukandi áhrif fyrir fjölmörg félög. Eins er áréttað að forsvarsmenn íþróttafélaga beri ábyrgð á staðgreiðslu skatta og tryggingargjalds, og geti sætt refsiábyrgð ef brotið er á þessum skyldum. Það er nauðsynlegt að horfa heidstætt á áhrif þessara leiðbeininga á starfsemi íþróttafélaga og mögulega verður erfiðara að reka félögin og fá sjálfboðaliða til starfa“