Skattamál

Mikilvægt er að huga að skattlagningu þegar nýjum atvinnurekstri er komið á fót. Að afla ráðgjafar um þessi málefni frá byrjun getur komið í veg fyrir dýr mistök og að óvæntar skattskuldbindingar líti dagsins ljós.

Skattaskipulagning

Í upphafi skal endinn skoða. Það getur reynst dýrmætt að skipuleggja verkefni fram í tímann en þannig auka fyrirtæki líkurnar á að komið sé í veg fyrir óvæntar og of háar skattgreiðslur á síðari stigum. Þannig þarf að huga jafnt að aðkomu fjárfesta og útgöngu þeirra. Þá þar sérstaklega að huga að:

 • Aðkomu stofnenda, lykilmanna og fjárfesta í upphafi starfseminnar áður en virði hefur myndast í félaginu.
 • Starfskjarastefnu stjórnenda og lykilstarfsmanna.
 • Því endurgjaldi sem stofnendur, fjárfestar og aðrir hafa hugsað sér að fá fyrir sitt framlag til rekstrarins.
 • Kaupréttum starfsmanna. Í tekjuskattslögum er að finna sérstakar reglur um skattlagningu vegna nýtingar starfsmanna á kauprétti.
 • Ef starfsemi mun að einhverju leyti fara fram erlendis og tekna aflað þaðan, er ráðlegt að huga vel að skattumhverfi þess ríkis er stofna á félag í. Auk þessa skal skoða þá tvísköttunarsamninga sem ríkið hefur gert við önnur ríki.
 • Ef tekjur af starfsemi eiga rætur sínar að rekja til erlendra ríkja þarf að huga að mögulegum afdráttarsköttum í þessum ríkjum og hvort endurgreiðsla þeirra sé möguleg.
 • Skoða mögulegar skattaívilnanir ef um þær er að ræða.

Félagsform og skatthlutfall

Það getur skipt máli að velja í byrjun það félagsform sem er hagstæðast fyrir starfsemina, samsetningu eigenda og fjárfesta. Skattlagning rekstrar má segja að sé þrenns konar,

1) ef um er að ræða eigin starfsemi á kennitölu manns er hagnaður skattlagður sem laun, 2) ef um er að ræða félag með ótakmarkaða ábyrgð a.m.k. eins eigenda, svo sem sameignar- félag eða samlagsfélag er hagnaðurinn skattlagður í 37,6% skatti og 3) ef um er að ræða félag með takmarkaða ábyrgð allra félagsmanna þ.e. hluta- eða einkahlutafélag er lagður 20% skattur á hagnað félagsins og 22% skattur af úthlutuðum arði til eigenda eða samtals 37,6%.

Hafa þarf í huga:

 • Almennt má segja að það sé skattalega hagstæðara að stofna félag með takmarkaðri ábyrgð ef ætlunin er að byggja upp eigið fé í rekstrinum með innri vexti. Með vísan til ofangreinds má segja að slík félög fái „frest“ á helmingi heildarskattsins, þ.e. seinni skattgreiðslan fellur ekki til fyrr en við úthlutun arðs til eigenda.
 • Ef ekki er stefnt að vexti með uppbyggingu eiginfjár heldur fyrirhugað að taka hagnaðinn út sem arð á hverju ári gæti verið ráðlegt að stofna félag með ótakmarkaðri ábyrgð a.m.k. eins eigenda. Þá er greiddur 37,6% skattur af hagnaðinum og úttektir eigenda úr rekstrinum 
 • þörf á sérstakri úthlutun arðs, sem í hlutafélögum og einkahlutafélögum getur fyrst átt sér stað þegar ársreikningur síðasta reikningsárs liggur fyrir, heldur er úttekt úr rekstri frjáls og án skattlagningar.
 • Algengt er að sprotafyrirtæki skili tapi fyrstu ár sín í rekstri. Skattalegt tap sem þannig myndast er hægt að nýta til lækkunar skattskyldra tekna næstu 10 ár frá því tap varð til. Ströng skilyrði eru þó sett fyrir nýtingu tapsins s.s. að telja þurfi tap hvers árs og eftir- stöðvar þess fram í skattframtali auk þess sem tapið getur fallið niður ef veruleg breyting verður á eignarhaldi eða starfsemi félags. Mikilvægt er því að telja rétt fram þannig að þessi skatteign tapist ekki.
 • Fjármögnun rekstrar getur verið í formi eiginfjárframlags eða láns- fjár. Arður af eiginfé er ekki frádráttarbær kostnaður hjá félaginu en vextir eru það almennt. Vextir af láni einstaklings til rekstrar síns telst hins vegar ekki frádráttarbær rekstrarkostnaður.

Hvatar og ívilnanir

 • Lögaðilar geta sótt um skattafrádrátt vegna kostnaðar við nýsköpunarverkefni.
 • Skilyrði fyrir skattafrádrættinum er 1) að Rannís samþykki að verkefnið falli undir skilgreiningu á rannsóknar eða þróunarverkefni, 2) að hugmyndin og viðskiptaáætlunin sé vel skilgreind, 3) að varið verði a.m.k. 1 m. kr. til verkefnisins á 12 mánaða tímabili og 4) að starfsmenn hafi þjálfun, menntun eða reynslu á því sviði sem hugmyndin byggist á.
 • Félög sem fengið hafa verkefni samþykkt eiga rétt á frádrætti frá álögðum tekjuskatti sem nemur 20% af útlögðum rekstrarkostnaði.Hámark kostnaðar til útreiknings á frádrætti nemur 600 eða 900 m. kr. Frádrátturinn getur því hæst numið 120 - 180 m. kr. lækkun á tekjuskattstofni en ef álagður tekjuskattur er lægri en ákvarðaður skattafrádráttur er mismunurinn greiddur út.

Staðgreiðsla og launatengd gjöld

 • Ef félög ráða til sín starfsmenn ber að halda eftir staðgreiðsluskatti og iðgjaldi í lífeyrissjóð af launum starfsmanna og skila til ríkissjóðs og lífeyrissjóða á réttum tíma. Þessu til viðbótar ber launagreiðanda að greiða tryggingagjald og mótframlag í lífeyrissjóð.
 • Það getur verið dýrkeypt og haft alvarlegar afleiðingar fyrir stjórnendur að sinna ekki þessari skyldu sinni. Ef vörslusköttum er ekki skilað á réttum tíma getur það leitt til sekta og jafnvel fangelsisvistar.

Virðisaukaskattur

 • Um leið og fyrirséð er að sala á virðisauka-skattskyldri vöru eða þjónustu fari yfir 2 m. kr. á ári ber að tilkynna það ríkisskattstjóra og skrá reksturinn á grunnskrá virðisaukaskatts. Frá og með þeim tíma ber að leggja á og innheimta virðisaukaskatt í starfseminni. Virðisaukaskattinum ber að lokum að skila í ríkissjóð á tilskyldum tíma. Séu vanhöld þar á getur það haft alvarlegar afleiðingar fyrir stjórnendur.
 • Reglur um virðisaukaskatt geta reynst flóknar og óljósar og er því mikilvægt að leita ráðgjafar ef einhverjar spurningar vakna.